Innlent

Frumskógarlögmál ræður ríkjum á gatnamótum

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Miklabraut er fjölfarnasta og um leið hættulegasta gatan í Reykjavík samkvæmt tölfræði Samgöngustofu. Þau þrjú gatnamót þar sem flest slys og óhöpp verða eru öll við Miklubraut. Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru að springa undan umferð á álagstímum.

Þegar græna ljósinu sleppir í vinstri beygju inn á Miklubraut má segja að frumskógarlögmálið taki við. Flöskuháls myndast reglulega og umferð er hleypt í gegn úr gagnstæðri átt og úr austur til vesturs á meðan bílar eru enn fastir á gatnamótunum sjálfum vegna umferðarþunga. Og oft má ekki miklu muna að illa fari. Í þessari frétt má sjá myndir teknar á mesta álagstíma á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar kl. 8:00 í morgun og nokkrum sinnum var aðeins heppni sem réði því ekki urðu árekstrar. Sjón er sögu ríkari í meðfylgjandi myndskeiði.

Ef öll gatnamót höfuðborgarsvæðisins eru skoðuð, án tillits til umferðar, árin 2008-2012 þá kemur í ljós að öll hættulegustu gatnamótin eru við Miklubraut.

Til þessa hefur fjármagn aðallega staðið nauðsynlegum samgönguúrbótum á Miklubraut fyrir þrifum, samkvæmt upplýsingum Stöðvar 2. Velta má fyrir sér hvort það verði einhvern tímann hægt að vinda ofan af þessari þróun nema með meiriháttar mannvirkjagerð. 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×