Erlent

Leiðtogar mótmælenda í Hong Kong samþykkja að ganga til viðræðna

Atli Ísleifsson skrifar
Mikið hefur dregið úr krafti mótmælanna síðustu daga.
Mikið hefur dregið úr krafti mótmælanna síðustu daga. Vísir/AFP
Leiðtogar mótmælenda í Hong Kong hafa samþykkt að taka upp formlegar viðræður við fulltrúa stjórnvalda.

Ekki hafa verið gefnar út dagsetningar um hvenær viðræður muni fara fram, en mótmælendur segja það skýrt að ekkert af þeim verði, verði þeir mótmælendur sem eftir eru á götum Hong Kong fluttir á brott með valdi af lögreglu.

Fréttaritari BBC í Hong Kong segir að þó að mótmælendum á götum Hong Kong hafi fækkað síðustu daga þá sé enn öflugur hópur sem ekki sé líklegur til að láta deigan síga.

Mikið hefur dregið úr krafti mótmælanna, sérstaklega eftir að opinberir starfsmenn sneru aftur til vinnu nú í byrjun vikunnar.

Alex Chow, einn leiðtoga mótmælenda, segist þó ekki hafa áhyggjur af fækkun mótmælenda á götum úti. „Fólk verður að hvíla sig, en það mun koma aftur. Þetta þýðir ekki að hreyfingin fari minnkandi. Fjölmargir styðja enn aðgerðirnar,“ segir Chow í samtali við BBC.

Mótmælendur krefjast þess að kosningar á þarnæsta ári verði án fyrirhugaðra afskipta kínverska kommúnistaflokksins, en stjórnvöld hafa handtekið og yfirheyrt tugi manna vegna stuðnings við mótmælin síðustu daga.

Þykja handtökurnar sýna að kommúnistaflokkurinn óttist að krafan um lýðræðisumbætur breiðist út til borga á meginlandinu en þar sæta fréttir af mótmælunum mikilli ritskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×