Tveir flutningabílar og einn fólksbíll loka nú veginum yfir Bröttubrekku eftir að þeir runnu þversum á veginum og loka honum. Engin er meiddur, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi, en utanaðkomandi aðstoð er nauðsynleg.
Vegagerðin í Búðardal hefur sent hefil og önnur tæki af stað áleiðis á vettvang, en búist er við að það muni taka nokkurn tíma að greiða úr flækjunni, og verður Brattabrekka því áfram lokuð um óákveðinn tíma.
Umferðartafir verða á Vesturlandsvegi undir Hafnarfjalli eitthvað fram eftir degi þar sem önnur akreinin verður lokuð á meðan á björgunaraðgerðum stendur.
Þar valt stór fiskflutningabíll með tengivagni í ofviðrinu í gærkvöldi þegar vindur fór upp í 60 metra á sekúndu. Ökumanninn sakaði ekki. Fjölmennt björgunarlið og stórvirkir kranar eru komin á vettvang og verður fiskurinn fyrst tíndur út úr tengivagninum og komið fyrir á öðrum bíl, áður en vagninn og bíllinn verða hífðir upp á veginn.
Varað er við aftakaveðri með glórulausum byl sem að horfur eru á skelli á norðanverðum Vestfjörðum um klukkan tvö í dag og standa mun fram undir kvöld. Veðurhæð verður óvenjumikil í öllum skilningi og vindur norðanstæður. Lagast um tíma snemma í kvöld, en upp úr klukkan níu í kvöld verður aftur N og NA 20-25 m/s á Vestfjarðakjálkanum og eins við Breiðafjörð með stórhríðarveðri og sama sem engu skyggni.
Víða ófært
Ennþá er ófært á Hellisheiði en vonast er til að hægt verði að opna um hádegi. Hægt er að fara Þrengslin. Opið er um Þrengsli en þar er snjóþekja og snjókoma. Einnig er ófært á Krísuvíkurvegi en annars er hálka eða snjóþekja á flestum leiðum á Suðurlandi.
Flughált er á Villingaholtsvegi, Gaulverjabæjarvegi og Þykkvabæjarvegi.
Á Vesturlandi er hálka eða snjóþekja á vegum en ennþá er ófært á Bröttubrekku þar sem flutningabíll lokar veginum.
Hálka, snjóþekja eða þæfingsfærð er á Vestfjörðum en ófært á Klettshálsi, Kleifaheiði og Hálfdán en unnið að hreinsun. Þungfært er í Ísafjarðardjúpi en snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum. Ófært er frá Bjarnarfirði og að Gjögri en unnið að hreinsun.
Á Norðurlandi er víða hálka eða snjóþekja en þungfært er á Dettifossvegi.
Hálka eða hálkublettir eru víða á Austurlandi en ófært á Vatnsskarði eystra, Breiðdalsheiði en þæfingsfærð á Öxi. Hálka eða hálkublettir eru einnig með suðausturströndinni en þó er greiðfært frá Hvalnesi að Kvískerjum.
Brattabrekka lokuð vegna umferðaróhapps
Gissur Sigurðsson og Stefán Árni Pálsson skrifa

Mest lesið

Engin röð á Læknavaktinni
Innlent

Kjarasamningur kennara í höfn
Innlent






Reykjavík ekki ljót borg
Innlent

