Þegar pabbastrákurinn var gerður kóngur Illugi Jökulsson skrifar 8. mars 2014 11:30 Helgríma Súmerakóngs. Pabbi hans var æðsti prestur, þess vegna varð hann kóngur. Það hjálpaði líka mikið til að tengdafaðir hans var einn af ríkustu mönnunum í plássinu, milljónamæringur, landeigandi. Þegar þeir tóku saman höndum, æðsti presturinn og landeigandinn, þá stóðst þeim enginn snúning og strákurinn varð kóngur. Hvort þeir rændu beinlínis völdum fyrir hann, eða hvort þeir keyptu þau, það vitum við ekki. En við vitum að strákurinn varð kóngur í krafti þeirra tveggja.Hvenær gerðist þetta? Þetta hefur oft gerst. Alltof oft og fram á þennan dag. Þetta hefur líka gerst víða, sjálfsagt í hverju landi eru til svona sögur. En þær enda þó ekki allar eins. Okkar saga endar vel, best að draga enga dul á það. Ekki samt fyrir kónginn. Heldur fyrir fólkið í landinu. Ótrúlegt nokk. Lagash, það er staðurinn. Núna er lítið að sjá í Lagash, fölbrún hæðardrög í bland við leirlitar sléttur, það er eins og ryk sitji yfir öllu og hylji allt líf, jafnvel græni liturinn á gróðurskikum bændanna sem þarna hokra virðist gamall og lúinn, bókstaflega runninn út í sandinn. Þetta er í Írak, við höfum margoft séð svipað landslag í sjónvarpsfréttunum, brynvarðir amerískir Hummerar róta upp rykskýjum, kuflklæddir íbúar í nokkrum kumböldum útí sveitinni reyna að leiða þá hjá sér, tveir úlfaldar í fjarska, ennþá fjær ein hrísla. Lagash er núna á ófrjósömu landi milli ánna Tígris og Efrat, vatn er af skornum skammti í þessari deyfðarlegu sveit. En í þá daga, þá var líf og fjör í Lagash. Því Lagash var þá heil borg, stórborg, og um þær mundir þegar æðsti presturinn og milljónamæringurinn gengu í bandalag um að koma prestssyninum á konungsstólinn og gera dóttur milljónamæringsins að drottningu, þá var Lagash-borg hvorki meira né minna en sú fjölmennasta í heimi. Þá stóð hún við eina af kvíslum Efrats og reyndar nálægt sjónum líka, því strandlengjan var þá rúmlega 200 kílómetrum ofar en nú er. Og borgin var hluti af Súmer, stórfenglegu menningarríki sem risið hafði í suðurhluta Íraks eða Mesópótamíu á fjórðu þúsöld fyrir Krist, en söguhetja okkar var aftur á móti uppi kringum árið 2400 fyrir Krist, eða fyrir rúmum 4.400 árum. Súmerar voru þá upp á sitt besta, brautryðjendur í allskonar vísindum og tækni, smíðuðu áveitur, þróuðu hjólið betur en aðrir höfðu gert áður, fóru að skrifa, fyrst hagtölur mánaðarins en seinna bókmenntaverk. Lagash-menn réðu yfir víðlendu ríki þarna í suðurhluta Mesópótamíu, þar voru sautján stórar borgir, átta héraðshöfuðborgir og fjöldinn allur af smærri bæjum og þorpum. Æðsti guð borgarinnar var Ninurta, skrímslabani mikill, en ekki yfir það hafinn að fást við landbúnað og hjálpa mannkyni að yrkja jörðina. Og það var fyrrnefndur æðsti prestur Ninurta sem náði að taka völdin í Lagash og gera son sinn að kóngi, en prestarnir munu um þær mundir hafa náð miklu áhrifavaldi yfir borginni.Kaupsýslukona Sonurinn sem nú varð kóngur hét Lugalanda og drottning hans, dóttir landeigandans og milljónamæringsins, hét Baranamtarra. Hún var greinilega ekki síðri peningamaður en karl faðir hennar, fræðimenn hafa getað rakið kaupsýslu hennar víða um nágrennið og til nágrannaborganna líka. Hún virðist hafa sýslað með ullarfatnað, mjólkurvörur, kopar og margt fleira. Á margvíslegum listum sem Súmerar héldu yfir eignir og hagsmuni má víða finna orðin „Eign Baranamtörru“ við kvikfénað, jarðeignir og alls konar smærri hluti. Og svo líka fólk, Baranamtarra átti fólk, það var sem sé búið að finna upp þrælahaldið.Uppreisn Í níu ár sátu Lugalanda og Baranamtarra á hásætum sínum í Lagash. Það hafa áreiðanlega verið góð ár – fyrir þau. Þau mökuðu krókinn, sópuðu að sér fé, röðuðu sínu fólki á garðann, spilling varð landlæg, augljós og grimm. Kóngurinn kastaði eign sinni á jarðeignir almennings og svívirti hina veikari þegna sína á ýmsan hátt. Alþýðan kveinaði undan þeim byrðum sem á hana voru lagðar en konungshjónin skeyttu engu um þá kveinstafi, þau voru með prestana bak við sig og stórkapítalið og búin að gera embættismenn og alla helstu leiðtoga háða sér, hvaða áhyggjur þurftu þau að hafa? Allt í einu braust út í Lagash einhver allra fyrsta bylting sem sögur fara af í heiminum. Valdarán höfðu auðvitað lengi tíðkast, þar sem einn einstaklingur tók við af öðrum, en það sem nú virtist vera í Lagash var hrein og klár alþýðubylting. Uppreisn kúgaðra stétta, ekki síst bænda, sem höfðu fengið nóg af spillingunni, skeytingarleysinu, arðráninu, kúguninni. Nákvæmlega hvernig þessi bylting var gerð vitum við ekki, en allt í einu var kominn nýr kóngur í landið, Úrúkagína hét hann. Í einni heimild segir að guðinn Ninurta hafi valið Úrúkagína úr hópi fjölda manns og það bendir óneitanlega til þess að hann hafi verið einn af leiðtogum uppreisnarinnar gegn Lugalanda, væntanlega alþýðumaður. Hvað varð um pabbastrákinn á konungsstólnum er ekki vitað, Lugalanda hverfur einfaldlega úr sögunni eins og jörðin hefði gleypt hann – og kannski var það einmitt raunin. Hins vegar er vitað að ríka drottningin Baranamtarra dó tveimur árum eftir byltinguna og þá brá svo við að drottning Úrúkagína, Shagshag að nafni, annaðist útför hennar með heilmikilli viðhöfn. En byltingin sem sópaði Lugalanda frá völdum hefur orðið þekkt í sögunni vegna þess að Úrúkagína hófst nú handa um að bæta samfélagið sem mest hann mátti. Hann lét setja mikla lagabálka, löngu á undan Hammúrabí hinum babýlónska, og í þeim verður vart mikillar viðleitni til að auka frelsi og jafnrétti þegnanna (nema náttúrlega þrælanna!) og skorður voru settar við valdi prestanna og hinna stóru landeigenda, sem sagt einmitt þeirra sem höfðu komið Lugalanda í hásætið. Það hefur því greinilega átt að bylta gjörsamlega því skipulagi sem komist hafði á undir stjórn fyrri konungs. Þá benda heimildir til að í lögum Úrúkagína hafi verið sérstök ákvæði gegn okri, ofstjórn, hungri, þjófnuðum, morðum og eignaupptöku af hálfu hinna voldugu. Í lofgjörð um verk Úrúkagína segir að „ekkjan og munaðarleysinginn voru ekki lengur leiksoppar hins volduga manns“.Lifðu sníkjulífi á alþýðunni Þá var lagt bann við því að ríkir menn og voldugir mættu berja alþýðufólk eins og virðist hafa verið plagsiður undir stjórn Lugalanda. Ég ítreka – þetta gerðist fyrir 4.400 árum eða þar um bil. Íbúar í Lagash létu ekki bjóða sér hvað sem er, heldur hrintu kúgaranum úr sessi. En það kom því miður í ljós að hinir ríku og voldugu, þeir áttu síðasta orðið. Þeir höfðu lifað sníkjulífi á alþýðunni en reyndar kostað her ríkisins, að því er talið er. Og nú þegar Úrúkagína hafði skorið upp herör gegn hinum ríku, þá hefndu þeir sín grimmilega. Þegar nágrannaborgin Umma fór að láta ófriðlega, þá virðast þeir ekki hafa lagt sig mikið fram um að verja heimaborg sína. Kannski var árás kóngsins í Umma meira að segja runnin undan rifjum óvina Úrúkagína heima fyrir, annað eins hefur nú gerst. Altént varð Umma-kóngur ráðinn í að koma byltingarforingjanum Úrúkagína frá völdum – þessi saga minnir óneitanlega á það þegar byltingarmenn í Frakklandi settu Bourbon-ættina af og franski aðallinn gekk í bandalag við nágrannaríkin um að koma byltingarmönnum aftur frá völdum. Aðalsmennirnir vildu auðæfi sín aftur, kóngar nágrannaríkjanna vildu koma í veg fyrir að byltingin í Frakklandi breiddist út til þeirra með hættulegum hugmyndum alþýðunnar. Svo kóngurinn í Umma réðist á Lagash og þótt Úrúkagína berðist eins og ljón var hann lemstraður eftir undanbrögð hinna ríku. Borgin var brennd, alþýðunni slátrað og aftur komst á „röð og regla“ eins og kúgun heitir gjarnan í munni kúgaranna. Hvað varð um Úrúkagína veit enginn, ætli hann hafi ekki bara farist í eldinum, en ónefnt súmerskt skáld orti eftir hann tregakvæði: „Syndir Úrúkagína, þær engar voru.“ Þannig fór um fyrstu alþýðubyltinguna, þannig hefur farið um þær fleiri en þó kemur alltaf að því að lokum að alþýðan gerir byltingu sé henni nóg boðið. Flækjusaga Menning Mest lesið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Króli trúlofaður Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira
Pabbi hans var æðsti prestur, þess vegna varð hann kóngur. Það hjálpaði líka mikið til að tengdafaðir hans var einn af ríkustu mönnunum í plássinu, milljónamæringur, landeigandi. Þegar þeir tóku saman höndum, æðsti presturinn og landeigandinn, þá stóðst þeim enginn snúning og strákurinn varð kóngur. Hvort þeir rændu beinlínis völdum fyrir hann, eða hvort þeir keyptu þau, það vitum við ekki. En við vitum að strákurinn varð kóngur í krafti þeirra tveggja.Hvenær gerðist þetta? Þetta hefur oft gerst. Alltof oft og fram á þennan dag. Þetta hefur líka gerst víða, sjálfsagt í hverju landi eru til svona sögur. En þær enda þó ekki allar eins. Okkar saga endar vel, best að draga enga dul á það. Ekki samt fyrir kónginn. Heldur fyrir fólkið í landinu. Ótrúlegt nokk. Lagash, það er staðurinn. Núna er lítið að sjá í Lagash, fölbrún hæðardrög í bland við leirlitar sléttur, það er eins og ryk sitji yfir öllu og hylji allt líf, jafnvel græni liturinn á gróðurskikum bændanna sem þarna hokra virðist gamall og lúinn, bókstaflega runninn út í sandinn. Þetta er í Írak, við höfum margoft séð svipað landslag í sjónvarpsfréttunum, brynvarðir amerískir Hummerar róta upp rykskýjum, kuflklæddir íbúar í nokkrum kumböldum útí sveitinni reyna að leiða þá hjá sér, tveir úlfaldar í fjarska, ennþá fjær ein hrísla. Lagash er núna á ófrjósömu landi milli ánna Tígris og Efrat, vatn er af skornum skammti í þessari deyfðarlegu sveit. En í þá daga, þá var líf og fjör í Lagash. Því Lagash var þá heil borg, stórborg, og um þær mundir þegar æðsti presturinn og milljónamæringurinn gengu í bandalag um að koma prestssyninum á konungsstólinn og gera dóttur milljónamæringsins að drottningu, þá var Lagash-borg hvorki meira né minna en sú fjölmennasta í heimi. Þá stóð hún við eina af kvíslum Efrats og reyndar nálægt sjónum líka, því strandlengjan var þá rúmlega 200 kílómetrum ofar en nú er. Og borgin var hluti af Súmer, stórfenglegu menningarríki sem risið hafði í suðurhluta Íraks eða Mesópótamíu á fjórðu þúsöld fyrir Krist, en söguhetja okkar var aftur á móti uppi kringum árið 2400 fyrir Krist, eða fyrir rúmum 4.400 árum. Súmerar voru þá upp á sitt besta, brautryðjendur í allskonar vísindum og tækni, smíðuðu áveitur, þróuðu hjólið betur en aðrir höfðu gert áður, fóru að skrifa, fyrst hagtölur mánaðarins en seinna bókmenntaverk. Lagash-menn réðu yfir víðlendu ríki þarna í suðurhluta Mesópótamíu, þar voru sautján stórar borgir, átta héraðshöfuðborgir og fjöldinn allur af smærri bæjum og þorpum. Æðsti guð borgarinnar var Ninurta, skrímslabani mikill, en ekki yfir það hafinn að fást við landbúnað og hjálpa mannkyni að yrkja jörðina. Og það var fyrrnefndur æðsti prestur Ninurta sem náði að taka völdin í Lagash og gera son sinn að kóngi, en prestarnir munu um þær mundir hafa náð miklu áhrifavaldi yfir borginni.Kaupsýslukona Sonurinn sem nú varð kóngur hét Lugalanda og drottning hans, dóttir landeigandans og milljónamæringsins, hét Baranamtarra. Hún var greinilega ekki síðri peningamaður en karl faðir hennar, fræðimenn hafa getað rakið kaupsýslu hennar víða um nágrennið og til nágrannaborganna líka. Hún virðist hafa sýslað með ullarfatnað, mjólkurvörur, kopar og margt fleira. Á margvíslegum listum sem Súmerar héldu yfir eignir og hagsmuni má víða finna orðin „Eign Baranamtörru“ við kvikfénað, jarðeignir og alls konar smærri hluti. Og svo líka fólk, Baranamtarra átti fólk, það var sem sé búið að finna upp þrælahaldið.Uppreisn Í níu ár sátu Lugalanda og Baranamtarra á hásætum sínum í Lagash. Það hafa áreiðanlega verið góð ár – fyrir þau. Þau mökuðu krókinn, sópuðu að sér fé, röðuðu sínu fólki á garðann, spilling varð landlæg, augljós og grimm. Kóngurinn kastaði eign sinni á jarðeignir almennings og svívirti hina veikari þegna sína á ýmsan hátt. Alþýðan kveinaði undan þeim byrðum sem á hana voru lagðar en konungshjónin skeyttu engu um þá kveinstafi, þau voru með prestana bak við sig og stórkapítalið og búin að gera embættismenn og alla helstu leiðtoga háða sér, hvaða áhyggjur þurftu þau að hafa? Allt í einu braust út í Lagash einhver allra fyrsta bylting sem sögur fara af í heiminum. Valdarán höfðu auðvitað lengi tíðkast, þar sem einn einstaklingur tók við af öðrum, en það sem nú virtist vera í Lagash var hrein og klár alþýðubylting. Uppreisn kúgaðra stétta, ekki síst bænda, sem höfðu fengið nóg af spillingunni, skeytingarleysinu, arðráninu, kúguninni. Nákvæmlega hvernig þessi bylting var gerð vitum við ekki, en allt í einu var kominn nýr kóngur í landið, Úrúkagína hét hann. Í einni heimild segir að guðinn Ninurta hafi valið Úrúkagína úr hópi fjölda manns og það bendir óneitanlega til þess að hann hafi verið einn af leiðtogum uppreisnarinnar gegn Lugalanda, væntanlega alþýðumaður. Hvað varð um pabbastrákinn á konungsstólnum er ekki vitað, Lugalanda hverfur einfaldlega úr sögunni eins og jörðin hefði gleypt hann – og kannski var það einmitt raunin. Hins vegar er vitað að ríka drottningin Baranamtarra dó tveimur árum eftir byltinguna og þá brá svo við að drottning Úrúkagína, Shagshag að nafni, annaðist útför hennar með heilmikilli viðhöfn. En byltingin sem sópaði Lugalanda frá völdum hefur orðið þekkt í sögunni vegna þess að Úrúkagína hófst nú handa um að bæta samfélagið sem mest hann mátti. Hann lét setja mikla lagabálka, löngu á undan Hammúrabí hinum babýlónska, og í þeim verður vart mikillar viðleitni til að auka frelsi og jafnrétti þegnanna (nema náttúrlega þrælanna!) og skorður voru settar við valdi prestanna og hinna stóru landeigenda, sem sagt einmitt þeirra sem höfðu komið Lugalanda í hásætið. Það hefur því greinilega átt að bylta gjörsamlega því skipulagi sem komist hafði á undir stjórn fyrri konungs. Þá benda heimildir til að í lögum Úrúkagína hafi verið sérstök ákvæði gegn okri, ofstjórn, hungri, þjófnuðum, morðum og eignaupptöku af hálfu hinna voldugu. Í lofgjörð um verk Úrúkagína segir að „ekkjan og munaðarleysinginn voru ekki lengur leiksoppar hins volduga manns“.Lifðu sníkjulífi á alþýðunni Þá var lagt bann við því að ríkir menn og voldugir mættu berja alþýðufólk eins og virðist hafa verið plagsiður undir stjórn Lugalanda. Ég ítreka – þetta gerðist fyrir 4.400 árum eða þar um bil. Íbúar í Lagash létu ekki bjóða sér hvað sem er, heldur hrintu kúgaranum úr sessi. En það kom því miður í ljós að hinir ríku og voldugu, þeir áttu síðasta orðið. Þeir höfðu lifað sníkjulífi á alþýðunni en reyndar kostað her ríkisins, að því er talið er. Og nú þegar Úrúkagína hafði skorið upp herör gegn hinum ríku, þá hefndu þeir sín grimmilega. Þegar nágrannaborgin Umma fór að láta ófriðlega, þá virðast þeir ekki hafa lagt sig mikið fram um að verja heimaborg sína. Kannski var árás kóngsins í Umma meira að segja runnin undan rifjum óvina Úrúkagína heima fyrir, annað eins hefur nú gerst. Altént varð Umma-kóngur ráðinn í að koma byltingarforingjanum Úrúkagína frá völdum – þessi saga minnir óneitanlega á það þegar byltingarmenn í Frakklandi settu Bourbon-ættina af og franski aðallinn gekk í bandalag við nágrannaríkin um að koma byltingarmönnum aftur frá völdum. Aðalsmennirnir vildu auðæfi sín aftur, kóngar nágrannaríkjanna vildu koma í veg fyrir að byltingin í Frakklandi breiddist út til þeirra með hættulegum hugmyndum alþýðunnar. Svo kóngurinn í Umma réðist á Lagash og þótt Úrúkagína berðist eins og ljón var hann lemstraður eftir undanbrögð hinna ríku. Borgin var brennd, alþýðunni slátrað og aftur komst á „röð og regla“ eins og kúgun heitir gjarnan í munni kúgaranna. Hvað varð um Úrúkagína veit enginn, ætli hann hafi ekki bara farist í eldinum, en ónefnt súmerskt skáld orti eftir hann tregakvæði: „Syndir Úrúkagína, þær engar voru.“ Þannig fór um fyrstu alþýðubyltinguna, þannig hefur farið um þær fleiri en þó kemur alltaf að því að lokum að alþýðan gerir byltingu sé henni nóg boðið.
Flækjusaga Menning Mest lesið Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Menning Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Lífið Króli trúlofaður Lífið Landaði hlutverki í íslensku Hallmark-myndinni á hálftíma Bíó og sjónvarp „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Lífið Frægir fundu ástina 2024 Lífið Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Lífið Fleiri fréttir Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Í beinni: Dagur íslenskrar tónlistar Reykjavík samdi til þriggja ára við Borgarleikhúsið Bróðir Díönu Prinsessu naut sín í Reykjavík Leikstjóri Forrest Gump mættur til Reykjavíkur 52 ár á milli þeirra og þrjár bækur Ballettdansarinn Vladimir Shklyarov látinn Einar og Sigga á Grund gerð að heiðurslistamönnum Skaðlegt geðheilsunni að reyna að geðjast öðrum Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Sjá meira