Innlent

Úr 250 milljónum í 350 milljónir króna

Sveinn Arnarsson skrifar
Ákvörðun útvarpsstjóra um breytingar á yfirstjórn eru dýr.
Ákvörðun útvarpsstjóra um breytingar á yfirstjórn eru dýr. Vísir/Vilhelm
Kostnaður vegna yfirstjórnar Ríkisútvarpsins hækkar um hundrað milljónir milli áranna 2013 og 2014. Kostnaður vegna yfirstjórnarinnar var 250 milljónir árið 2013 en áætlað er að kostnaðurinn sé um 350 milljónir á árinu 2014.

Ljóst þykir að mannabreytingar í yfirstjórn Ríkisútvarpsins og sú ákvörðun Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra að skipta um alla yfirstjórnina reynast dýrar fyrir stofnunina. Stór hluti þessarar aukningar á fjármunum til yfirstjórnarinnar er tilkominn vegna starfslokasamninga við fyrri stjórnarmenn. Nokkur umræða hefur skapast upp á síðkastið um stöðu Ríkisútvarpsins vegna fjárlaga ársins 2015. Magnús Geir hefur látið hafa það eftir sér að ef fjárlög fara óbreytt í gegnum þingið muni það þýða miklar uppsagnir á RÚV sem og að þættir verði lagðir af.

Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, hefur á hinn bóginn bent á að verið sé að auka fjárútlát til RÚV töluvert í nýjum fjárlögum. Ekki náðist í Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra við vinnslu fréttarinnar.

Uppfært 10:48. Rekstrarkostnaður vegna yfirstjórnar Rúv hækkaði vegna einskiptiskostnaðar við starfslok fyrrverandi útvarpsstjóra, uppsagna framkvæmdastjórarnar Rúv og fjölgunar stjórnarmanna Rúv ohf. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×