Erlent

Bardagar í kringum SOS barnaþorp í Suður-Súdan

Stefán Árni Pálsson skrifar
Almennir borgarar í Malakal.
Almennir borgarar í Malakal. mynd / aðsend
Bardagi á milli stjórnarhers Suður-Súdans og uppreisnarmanna er nú ekki eingöngu í höfuðborginni, Juba, heldur einnig á öðrum svæðum.

Á jóladag hófst bardagi í Malakal þar sem eina SOS barnaþorp landsins er staðsett en 20 Íslendingar eru styrktarforeldrar barna í SOS barnaþorpinu í Malakal.

Bardaginn stóð í fjóra daga og á þeim tíma þurftu öll börn og starfsmenn SOS Barnaþorpsins að halda sig innan dyra. Þá settu starfsmenn þorpsins upp varnargarð til þess að þorpið væri sem öruggast.

Ungabarn í SOS Barnaþorpinu í Malakal.
Ekki þótti óhætt að flytja börn og SOS mæður þeirra á hættuminni stað, þar sem mikil hætta stafaði af því að vera utandyra á götum Malakal. Nokkrir uppreisnarmenn voru særðir þegar þeir reyndu að flýja í gegnum SOS svæðið en til allrar lukku særðist ekkert barnanna eða starfsfólk SOS.

Verslanir og bankar í Malakal hafa verið teknir yfir og því óttast starfsmenn SOS að skortur verði á mat og öðrum vörum. Einnig hræðast þeir að annar bardagi hefjist fljótlega.

Um eitt þúsund manns hafa látið lífið frá því að ófriðurinn hófst í Suður-Súdan í nýliðnum mánuði og 200.000 manns hafa flúið heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×