Lee Johnson notaði heldur neikvæð orð til að lýsa hæfileikum Luis Suarez og hann talar þar af eigin reynslu því þeir mættust á fótboltavellinum fyrir fjórum árum þegar Ajax, þáverandi lið Luis Suarez, spilaði æfingaleik á móti Bristol City.
„Hann er eins og skítug göturotta og þetta er ekki illa meint," segir Lee Johnson í viðtali við The Mirror.
„Hann er beittur og hræðilegur en ég ber mikla virðingu fyrir honum því hann hefur hugarfar sigurvegarans. Hann þráir það að vera betri í dag en hann var í gær," sagði Johnson.
„Ég mætti Suarez þegar ég spilaði með Bristol City og tókst illa upp því hann skoraði í leiknum. Ég man að ég spurði sjálfan mig af því hver þessi strákur hafi verið því hann var ekki þekktur þá. Ég átti ekki möguleika á móti honum því hann var það góður," rifjar Johnson upp.
Luis Suarez hefur skorað fimmtán mörk í sjö heimaleikjum Liverpool á þessu tímabili og það verður verðugt verkefni fyrir varnarmenn Oldham að stoppa hann í bikarleiknum á morgun.


