Erlent

NSA kemur sér upp ofurtölvu

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Frá höfuðstöðvum NSA.
Frá höfuðstöðvum NSA. Nordicphotos/AFP
Bandaríska þjóðaröryggisstofnunin NSA vinnur hörðum höndum að því að koma sér upp ofurtölvu sem hægt væri að nota til að brjótast í gegnum næstum allar tegundir af dulkóðun.

Bandaríska dagblaðið Washington Post skýrir frá þessu og vitnar í leyniskjöl, sem fengin eru frá uppljóstraranum Edward Snowden.

Tölvan yrði svokölluð skammtatölva, en undanfarin ár hafa vísindamenn víða um heim unnið að því að gera þá tækni nothæfa sem þarf til að búa til slíkar tölvur, en þær yrðu miklu öflugri en allar tölvur sem nú eru til.

Varla nein dulkóðunarkerfi, sem notuð eru til að tryggja öryggi í bankastarfsemi, heilbrigðiskerfinu, fyrirtækjum og stofnunum, gætu staðist reiknigetu slíkra tölva.

Samkvæmt skjölunum frá Snowden, sem upphaflega eru komin frá NSA, telja starfsmenn NSA sig vera komna langt á veg með þessa tækni, jafnvel lengra en flestir aðrir.

Töluvert langt kann þó að vera í að þessar hugmyndir verði að veruleika, því enginn hægðarleikur mun vera að nota skammtafræðina í þessu skyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×