Íslenski boltinn

Elísa verður ekki með ÍBV í sumar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir. Mynd/KSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði og lykilmaður kvennaliðs ÍBV, mun ekki spila með ÍBV-liðinu í Pepsi-deild kvenna í fótbolta á komandi tímabili en þetta kemur fram í sameiginlegri fréttatilkynningu Elísu og ÍBV.

Elísa, sem er yngri systir Margrétar Láru Viðarsdóttir, er 22 ára varnarmaður sem hefur bæði spilað sem miðvörður og sem bakvörður í ÍBV-liðinu. Hún er eina A-landsliðskona ÍBV í dag og því mikill missir fyrir kvennalið ÍBV.

Elísa hefur gengt fyrirliðastöðunni hjá ÍBV undanfarin fjögur tímabil þar af hefur hún verið aðalfyrirliði liðsins undanfarin tvö sumur.

Elísa spilaði alla 18 leiki ÍBV í Pepsi-deildinni síðasta sumar og lék ennfremur átta A-landsleiki á síðustu tveimur árum. Elísa hefur leikið 54 leiki í efstu deild fyrir ÍBV.



Fréttatilkynning ÍBV og Elísu:

Eftir langt, gott og gæfuríkt samstarf hafa ÍBV og Elísa ákveðið að leiðir skilji í bili og mun Elísa leika með nýju félagi á komandi leiktímabili. Elísa kveður félagið með söknuði enda verið einn besti leikmaður liðsins undanfarin ár ásamt því að vera fyrirliði.

Félagið þakkar Elísu innilega framlag sitt og hlakkar til að sjá hana aftur í búningi ÍBV í framtíðinni. Þá vill Elísa þakka öllum sínum liðsfélögum, stjórn og stuðningsmönnum fyrir þennan frábæra tíma sem hún hefur átt hjá ÍBV. Elísa tók þátt í endurreisn kvennaknattspyrnu hjá félaginu og skilur við liðið eftir að hafa tekið þátt í að koma því á meðal þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×