Innlent

Íslendingar eru hættir að fitna

Hrund Þórsdóttir skrifar
Íslendingar eru hættir að fitna. Þetta á við um bæði börn og fullorðna en ennþá er deilt um hvaða áhrif líkamsfita hefur á heilsufar fólks. Hugsanlega er betra að vera aðeins of þungur en mjög léttur.

Íslendingar fitnuðu hratt á seinni hluta síðustu aldar og ýmsir fylgdust áhyggjufullir með þessari þróun. Góðu fréttirnar eru hins vegar að nú virðist þjóðin hætt að fitna.

Gögn frá Hjartavernd umr þróun líkamsþyngdarstuðuls fullorðinna Íslendinga frá 1967 til 2010 sýna að stöðug aukning átti sér stað til ársins 2007 en þá hætti hún og síðan standa tölurnar í stað.

Þá hefur börnum yfir kjörþyngd fækkað frá árinu 2008 um 4 til 5%, eins og fram kemur í gögnum frá embætti landlæknis. Taka ber fram að um er að ræða börn sem glíma við offitu auk þeirra sem eru yfir kjörþyngd en teljast ekki með offitu.

Eru Íslendingar hættir að fitna?

„Já, Íslendingar eru hættir að fitna, bæði börn og fullorðnir,“ segir Stefán Hrafn Jónsson, félagsfræðingur hjá embætti landlæknis. „Hlutfall Íslendinga sem glíma við offitu hefur lítið breyst síðustu ár.

Stefán segir búsetu og félags- og efnahagslega stöðu geta haft áhrif á þyngd fólks. „Fólk á landsbyggðinni hefur mælst þyngra einhverra hluta vegna en það hafa ekki verið meiri eða minni breytingar þar en á höfuðborgarsvæðinu síðustu ár.“

Umdeilt er hvaða áhrif líkamsfita hefur á heilsufar fólks og Stefán segir lítt gagnlegt að einblína á holdafar. Líkamsþyngd mæld í kílóum segi til dæmis ekkert um fitu- og vöðvamagn. Þá sé mikið deilt um hver efri mörk kjörþyngdar eigi að vera. „Rannsóknir Hjartaverndar sýna að það sé jafnvel betra að vera rétt yfir efri mörkum kjörþyngdar en að vera í neðri mörkum kjörþyngdar hvað varðar lífslíkur,“ segir hann.

Er þá hugsanlega betra að vera örlítið þyngri en aðeins of léttur?

„Mögulega já, en það sem skiptir mestu máli er að vera í formi, hreyfa sig reglulega og borða hollan mat,“ segir Stefán að lokum.


Tengdar fréttir

80% færri deyja úr hjartasjúkdómum, þrátt fyrir aukna offitu

Ótímabærum dauðsföllum af völdum hjartasjúkdóma hefur fækkað um 80% frá árinu 1980, þrátt fyrir að þjóðin hafi fitnað mikið. Ástæðan er fyrst og fremst heilsusamlegri lífshættir eins og minni neysla á harðri fitu, en merki eru um að við stefnum aftur í fyrra horf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×