Viðskipti innlent

Fyrsti olíurisinn kemur í leitina á Drekasvæði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, í miðið, afhenti fyrstu leyfin í janúar í fyrra að viðstöddum Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvegaráðherra og Ola Borten Moe olíumálaráðherra Noregs.
Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri, í miðið, afhenti fyrstu leyfin í janúar í fyrra að viðstöddum Steingrími J. Sigfússyni atvinnuvegaráðherra og Ola Borten Moe olíumálaráðherra Noregs. Vísir/Stefán
Þriðja sérleyfinu til leitar og vinnslu olíu á Drekasvæðinu verður formlega úthlutað við athöfn í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík í næstu viku, þann 22. janúar. Þetta verður stærsta sérleyfið til þessa í íslenskri lögsögu. Það markar jafnframt fyrstu innkomu eins af olíurisum heims að olíuleitinni, kínverska félagsins CNOOC.

Leyfisúthlutunin sætir einnig tíðindum á alþjóðavettvangi sökum þess að þarna taka höndum saman kínverskt og norskt ríkisolíufélög. Samskipti Noregs og Kína hafa verið við frostmark frá því norska Nóbelsverðlaunanefndin veitti kínverskum andófsmanni friðarverðlaunin árið 2010 og hefur Reuters-fréttastofan velt því upp hvort Norðmenn líti á þetta sem tækifæri til að leita sátta við Kínverja.

Sérleyfin þrjú á Drekasvæðinu. Petoro er 25% aðili að þeim öllum.
Orkustofnun veitir leyfið til hóps þriggja aðila. CNOOC verður með 60% og rekstraraðili leyfisins. Norska félagið Petoro verður með 25% og Eykon Energy, sem er í íslenskri eigu, verður með 15%. Helstu aðstandendur Eykons eru Heiðar Már Guðjónsson, Gunnlaugur Jónsson og Norðmaðurinn Terje Hagevang.

Fyrstu tveimur sérleyfunum á landgrunni Íslands var úthlutað í Ráðherrabústaðnum við Tjörnina þann 4. janúar í fyrra, að viðstöddum ráðherrum olíumála Íslands og Noregs, Steingrími J. Sigfússyni og Ola Borten Moe. Norski olíumálaráðherrann lýsti athöfninni þá sem sögulegri fyrir Norðmenn þar sem þetta væri í fyrsta sinn sem norska ríkið tæki beinan þátt í olíuleit utan lögsögu Noregs. Ekki er búist við að erlendir ráðherrar verði við athöfnina að þessu sinni.


Tengdar fréttir

Stórþingið samþykkti að ganga inn í Drekaleyfið

Norska Stórþingið staðfesti í dag þátttöku norska ríkisins í þriðja olíuleitarleyfinu á íslenska Drekasvæðinu, með samþykkt sérstakrar fjárveitingar til verkefnisins á fjárlögum Noregs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×