Handbolti

Robbi öfundar mig af gráa hárinu

Henry Birgir Gunnarsson í Álaborg skrifar
Það var létt yfir herbergisfélögunum Snorra Steini Guðjónssyni og Róberti Gunnarssyni eftir æfingu landsliðsins í Gigantium-höllinni í Álaborg í dag. Róbert gerði sitt besta til þess að trufla blaðamann í viðtalinu og skaut sér inn í viðtalið en vildi þó ekki vera með.

"Ertu að bögga blaðamanninn? Ertu ekki að reyna að bögga mig," sagði Snorri Steinn léttur er hann sá tilburði félagans sem tókst nú ekki að koma ofanrituðum úr jafnvægi.

"Fíflalætin eru af hinu góða svo lengi sem menn halda einbeitingu þegar út í leikinn er komið. Samband okkar herbergisfélaganna verður bara betra og betra. Annars værum við löngu hættir."

Snorri Steinn spilar með danska félaginu GOG og kann því vel við sig í Danmörku.

"Það er gaman að spila hérna í Danmörku en ég hefði persónulega kosið alla hina leikstaðina fram yfir þennan. Það er létt yfir öllum enn sem komið er," segir Snorri en strákarnir í liðinu eru ekki beint himinlifandi með hótelið sitt.

"Það er ekki beint í EM-standard. Því var logið að það væri fjögurra stjörnu. Það er ekki séns. Robbi segir að þetta sé heimavist en við lifum það af."

Snorri er aðeins farinn að grána í vöngum og segir að Róbert, sem er tískulögga, sé ánægður með breytingarnar á hárinu.

"Hann kann vel við þetta og öfundar mig. Þetta er betra en að vera sköllóttur. Þetta er gangur lífsins og ég tek þessu með jafnargeði."

Viðtalið við Snorra Stein má sjá í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×