Fótbolti

Platini óánægður með forystumenn FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Platini, forseti UEFA.
Platini, forseti UEFA. Nordic Photos/Getty
Michel Platini, forseti Knattspyrnusambands Evrópu, er ekki ánægður með að Jerome Valcke hafi tjáð sig um HM 2022 í vikunni.

Valcke fullyrti að úrslitakeppni HM 2022, sem fer fram í Katar, færi fram að vetri til vegna mikils hita í þessum heimshluta yfir sumarmánuðina.

Stuttu síðar birti Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, yfirlýsingu þar sem ítrekað var að engin ákvörðun hefði verið tekin um málið og yrði ekki gert fyrr en eftir HM í Brasilíu í sumar.

„Þegar framkvæmdastjórnin fundaði í október var ákveðið að gera ítarlega úttekt á málinu og að engin yrði ákvörðun yrði tekin fyrir HM 2014,“ sagði Platini í samtali við franska fjölmiðla.

Sepp Blatter, forseti FIFA, sagði þó fyrir tveimur mánuðum síðan að líklega væri ekki hægt að halda HM í Katar nema að vetri til. Platini gagnrýndi einnig þau orð.

„Ég skil ekki það þurfti að ræða þetta opinberlega. Fyrst Blatter fyrir tveimur mánuðum og nú Valcke. Þetta átti að vera ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar. En kannski skipti framkvæmdastjórnin ekki máli.“

„Fyrst búið er að ákveða þetta er óþarfi að funda, sérsaklega fyrir þá málglöðu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×