Daninn Kevin Magnussen og Bretinn Jenson Button eru ánægðir með nýjan bíl McLaren sem kynntur var til sögunnar í gær.
Vígsluathöfnin var hlédræg miðað við það sem menn hafa átt að venjast hjá breska félaginu undanfarin ár. Tímarnir hafa breyst síðan Lewis Hamilton og Fernando Alonso vígðu bíl félagsins í mikilli veislu í Valencia og Cirque de Soleil sá um skemmtiatriðin.
„Umfjöllun um nýju bílana okkar hefur verið í meira lagi neikvæð. Mér finnst bílarnir fallegir fyrir utan þennan skrýtna hluta framan á bílnum sem reglurnar krefjast,“ sagði Jenson Button.
„Við leggjum ekki alla áherslu á útlit bílsins enda þarf hann fyrst og fremst að vera hraðskreiður. Hann þarf þó að líka að líta vel út. Stuðningsmenn okkar vilja ekki horfa á okkur keyra í kassa.“
Myndir af nýja bílnum má sjá hér að ofan og neðan. Þar má einnig finna myndband þar sem sagt er frá kostum nýja bílsins.
Formúla 1