Innlent

Hestaleikhús á Suðurlandi

Hjörtur Hjartarson skrifar
Veitingastaðurinn, Fákasel verður opnaður þann 2.febrúar. Hestagarðurinn eins og hann verður kallaður í framtíðinni er fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Þar er íslenski hesturinn í aðalhlutverki.

Hugmyndin kviknaði fyrir rúmum tveimur árum og framkvæmdir síðan á miðju sumri eins og áður segir. Stærsti fjárfestirinn í verkefninu er Icelandic Tourism Fund en að auki koma að verkefninu átta fjárfestar úr einkageiranum.

„Og allir eiga það sameiginlegt að vera samstíga um að vilja gera hlutina vel og trúa því að það sé bara einn séns, þess vegna viljum við gera hlutina vel strax í byrjun,“ segir Guðmar Þór Pétursson, aðstoðarframkvæmdastjóri Fákasels.

Úr sýningunni
Guðmar vill ekki gefa upp heildarkostnað verkefnisins en ljóst má vera að það hleypur á nokkur hundruð milljónum króna.

Veitingastaðurinn er samtengdur reiðhöllinni í Ölfusi og skipar hún stórt hlutverk í heildarmynd staðarins. Þar verða daglega hestasýningar, einskonar hestaleikhús. Auk þess að vera aðstoðarframkvæmdarstjóri er Guðmar einnig höfundur og leikstjóri sýningarinnar.

Í sýningunni er byggt á sérstöðu og hæfileikum íslenska hestsins sem sýndur er í sögulegu samhengi við land og þjóð.

Guðmar segir að markhópurinn séu ferðamenn, innlendir sem erlendir.

„Staðsetningin er náttúrulega einstök og umhverfið er það líka.“

Minjagripabúð verður einnig starfrækt í húsnæðinu og er það Kron Kron sem sér um reksturinn.

En þrátt fyrir að mikið hafi verið lagt í veitingastaðinn, búðina og helsta umhverfi verður íslenski hesturinn helsta aðdráttarafl staðarins.

„Klárlega. Þetta gengur undir formerkjunum, Íslenski hestagarðurinn. Hesturinn er í aðalhlutverki í allri sinni dýrð,“ segir Guðmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×