Innlent

Segir sjónarmiðum Íslands hafa verið komið á framfæri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/SAMSETT
Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar, spurði Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra um heimsókn hans á Vetrarólympíuleikana í Sotsjí í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Róbert spurði hvort ráðherra hafi gefist tækifæri til þess á að koma sjónarmiðum ríkisstjórnar Íslands til mannréttindamála hinsegin fólks á framfæri og með hvaða hætti það hafi verið gert.

Illugi sagði stefnu íslenskra stjórnvalda hafa verið komið á framfæri við rússnesk stjórnvöld þrátt fyrir að hann hafi ekki átt eiginlegan fund með Pútín. Íslendingar hafi fordæmt þá lagasetningu sem vísað er til í umræðunni um stöðu samkynhneigðra í Rússlandi.

Illugi sagðist hafa komið sjónarmiðum sínum um réttindi samkynhneigðra  á framfæri úr ræðustól Alþingis sem einskorðaðist ekki við Rússland því víða væri pottur brotinn í stöðu þessa hóps. Ráðherrann benti á stöðu samkynhneigðra í Palestínu máli sínu til stuðnings.

Hann sagðist vera þeirrar skoðunar að Ólympíuleikarnir snúist um frið og samveru og taldi því rétt að hann sem íþróttamálaráðherra mætti á leikana. Afstaða stjórnvalda eigi þó að liggja skýr fyrir áður en slíkir leikar eru sóttir heim.

„Menn eru ekki að þiggja heimboð rússneskra stjórnvalda heldur er það Ólympíunefndin sem býður" og taldi Illugi rétt að gera greinarmun þar á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×