Innlent

Blaðamannaverðlaunin veitt í dag

Handhafar Blaðamannaverðlaunanna í ár.
Handhafar Blaðamannaverðlaunanna í ár. Vísir/Andri Marino
Blaðamannaverðlaunin fyrir árið 2013 voru veitt í Gerðarsafni í dag. Það er Blaðamannafélag Íslands sem veitir verðlaunin í fjórum flokkum.

Blaðamannaverðlaunin í ár hlaut Bergljót Baldurssdóttir á fréttastofu Ríkisútvarpsins fyrir umfjöllun sína um ýmis vísindi og rannsóknir og fyrir að takast að sýna erfiða stöðu í heilbrigðiskerfi landsmanna. 

Einnig hlutu tilnefningu til Blaðamannaverðlaunanna Helgi Seljan hjá Kastljósi Ríkisútvarpsins fyrir umfjöllun um fjármál, heilbrigðismál og lögreglu- og fangelsismál og Svavar Hávarðsson hjá Fréttablaðinu fyrir skrif sín um ólík efni, meðal annars síldardauða í Kolgrafarfirði og vandamál tengdum virkjunar háhitasvæða í tengslum við Hellisheiðarvirkjun.

Það var Stígur Helgason sem fór með sigur af hólmi í flokkinum Viðtal ársins fyrir viðtal sitt við Maríu Rut Kristinsdóttir, formann Stúdentaráðs Háskóla Íslands í Fréttablaðinu. Í umsögn dómnefndar kemur fram að María Rut upplifði kynferðisofbeldi sem hún tókst á við með aðstoð menntamálaráðherra. Í dag berst hún við ráðherrann á opinberum vígstöðvum.

Í flokkinum Viðtal ársins voru einnig tilnefnd Kristjana Guðbrandsdóttir á DV fyrir viðtal við Gunnar Smára Egilson og Orri Páll Ormarsson á Morgunblaðinu fyrir viðtal sitt við Eyþór Eyjólfsson

Í flokknum Rannsóknarblaðamennska ársins 2013 voru það þeir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson á DV sem urðu hlutskarpastir fyrir umfjöllun sína um hælisleitendur á Íslandi og möguleg brot á réttindum einstaklinga í hópi þeirra.

Einnig hlutu tilnefningar þau Eva Bjarnadóttir á Fréttablaðinu fyrir umfjöllun um sjálfræðissviptingu og naðungarvistun geðsjúkra og Ægir Þór Eysteinsson á Kjarnanum fyrir samantekt á rekstri Sparisjóðs Keflavíkur.

Það var ritstjórn Kastljóss sem hlaut verðlaun fyrir Umfjöllun ársins 2013 fyrir umfjöllun um kynferðisbrot og afleiðingar þeirra með afhjúpun á brotum manns til áratuga. 

Einnig hlutu tilnefningu fréttastofa 365 fyrir fréttaflutning af skotárás í Hraunbæ og ritstjórn RÚV fyrir umfangsmikla umfjöllun fyrir Alþingiskosningarnar 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×