Enski boltinn

Suárez sér eftir tveimur atvikum en ekki Evra-málinu

Suárez sér eftir tveimur hlutum á sínum ferli.
Suárez sér eftir tveimur hlutum á sínum ferli. Vísir/Getty
Luis Suárez, framherji Liverpool, óttast það að meiðast og missa af HM í Brasilíu í sumar.

Suárez hefur farið hamförum allt tímabilið og er lykilmaður í úrgúvæska landsliðinu sem gæti gert góða hluti í Brasilíu í sumar.

Hann veit aftur á móti að ein tækling eða ein slæm meiðsli geta gert út um drauma hans að spila á HM í sumar líkt og kom fyrir Kólumbíumanninn Radamel Falcao og Theo Walcott, leikmann Arsenal.

„Sannleikurinn er sá að ég er hræðist það sem kom fyrir Falcao og Walcott,“ sagði Suárez í útvarpsviðtali.

Hann ætlar þó ekkert að hlífa sér það sem eftir lifir leiktíðar enda Liverpool í góðum málum í deildinni og bikarnum.

„Maður lifir í nútíðinni og þarf að gera sitt allra besta fyrir sitt félag. Það þýðir ekkert að hugsa um þetta alla daga.“

„Að spila á HM er einstakt tækifæri og þar vil ég vera en núna einbeiti ég mér alfarið að úrvalsdeildinni. Ég leyfi mér seinna meir að hugsa um landsliðið,“ sagði Suárez.

Markahrókurinn var einnig spurður út í mistökin á sínum ferli og hann segist hafa gert tvenn mistök. Það sem kom upp á milli hans og Patrice Evra fer ekki í þann flokk.

„Ég hef gert tvenn mistök á mínum ferli. Fyrst þegar ég spilaði fyrir Ajax og beit leikmann og svo þegar ég beit Branislav Ivanovic. Þetta eru einu mistökin sem ég hef gert sem fótboltamaður,“ sagði Suárez.

„Ég baðst fyrirgefningar og þar með var því lokið. Ég sé ekki eftir neinu öðru. Allt annað sem gerðist á Englandi var bara eins og bíómynd sem allir hér í landi trúðu.“

„Það sem gerðist á milli mín og Evra var allt ósatt. Ég var sakfelldur án sannanna. En það er í fortíðinni núna og ég er ánægður í dag. Ég hef þroskast og nú hugsa ég hlutina áður en ég framkvæmi þá,“ sagði Luis Suárez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×