Innlent

Telur afgreiðslu dómara tilhæfulausa

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Stefán Karl hefur beðið skjólstæðing sinn afsökunar.
Stefán Karl hefur beðið skjólstæðing sinn afsökunar. VÍSIR/SAMSETT
Stefán Karl Kristjánsson lögmaður hafnar því að hafa brotið gegn skjólstæðingi sínum eða sýnt dómi vanvirðu í yfirlýsingu sem hann sendi vegna frétta þess efnis að honum hefði verið gert að greiða 300 þúsund krónur í sekt.

Með dómi Héraðsdóms Reykjaness var Stefáni Karli gert að greiða sektina vegna ámælisverðra vinnubragða sem verjandi manns sem dæmdur var með í sama dómi í fjögurra mánaða fangelsi fyrir fíkniefnabrot.

„Ég tel afgreiðslu dómara tilhæfulausa og mun leita eftir því á öðrum vettvang að fá henni hnekkt,“ segir Stefán Karl í yfirlýsingunni.

Með yfirlýsingu Stefáns Karls fylgdu endurrit úr þingbók Héraðsdóms Reykjaness og tölvupóstssamskipti milli dómara málsins, ákæruvalds og verjanda.

Stefán Karl skrifar athugasemdir á þingbækurnar og segir í yfirlýsingu að hann finni að því að dómari hafi ekki tilkynnt verjanda um dagsetningar á fyrirtökum, að lögmæt boðuð forföll séu skráð sem ólögmæt.

Hann segir þingbók málsins bera þess merki að vera breytt eftir á og að ekki hafi verið boðað til þinghalda með formlegum hætti. Dómari hafi misritað dagsetningar fyrirtöku og ekki leiðrétt. Hann segir göngin bera þess merki að dómari hafi átt í einhliða samskiptum við ákæruvald um frestun máls utan réttar.

Í athugasemdum Stefáns Karls kemur fram að í fyrsta skipti sem hann mætti ekki í þinghald hafi hann verið lagður á sjúkrahús sama dag vegna botnlangabólgu en í það skipti mætti annar fulltrúi í stað Stefáns Karls.

Í annað skipti sem hann mætti ekki vísar Stefán Karl til þess að hann hafi ekki verið látinn vita af þeirri því þinghaldi og ekki einu sinni eftir það og hann hafi ekki vitað fyrr en seint í nóvember að þinghald hafi verið þennan dag.

Stefán Karl segir að ekki hafi verið haft samband við hann þegar hann mætti ekki við aðalmeðferð málsins nú í febrúar. „Að sönnu gerði ég mistök þegar ekki var mætt til aðalmeðferðar og er misritun í dagbók um að kenna. Vandræðalítið var fyrir dóminn að hafa samband við lögmannsstofuna og leita skýringa á útivist. Dómari kaus hins vegar að gera það ekki og undrar,“ segir í yfirlýsingu Stefáns Karls.

Stefán Karl bað skjólstæðing sinn afsökunar á mistökum sínum og segir hann hafa tekið henni vel.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×