Innlent

Martha Lilja verður fram­kvæmda­stjóri Jafn­réttis­stofu

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Martha Lilja Olsen hefur verið skipuð framkvæmdastjóri Janfréttisstofu.
Martha Lilja Olsen hefur verið skipuð framkvæmdastjóri Janfréttisstofu. Stjórnarráðið

Martha Lilja Olsen hefur verið skipuð framkvæmdastjóri Janfréttisstofu. Það er Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra sem skipar Mörthu í embættið en alls sóttu sex um embættið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu sem birtist á vef Stjórnarráðsins. Þar segir að niðurstaða ráðherra um skipun Mörtu byggi á heildarmati en bakgrunnur Mörthu falli best að starfslýsingu og hún því metin hæfust í starfið.

„Martha Lilja Olsen lauk B.A.-prófi í sagnfræði með íslensku sem aukagrein árið 2003 og M.A.-prófi í hagnýtum hagvísindum árið 2006. Martha Lilja lauk diplómu á meistarastigi í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands árið 2009 og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu árið 2019 við sama skóla,” segir í tilkyningunni.

Þá hefur Martha Lilja starfað sem skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskólans á Akureyri frá árinu 2015 en þar á undan var hún deildarstjóri rekstrardeildar Skattstofu Vestfjarðaumdæmis árin 1999 til 2005, kennslustjóri hjá Háskólasetri Vestfjarða á árunum 2006 til 2011 og þýðandi hjá Þýðingamiðstöð utanríkis­ráðuneytisins frá 2011 til 2015.

„Þá hefur Martha Lilja reynslu af rekstri á sviði opinberrar stjórnsýslu og fjárhagsáætlanagerð, auk þess sem hún hefur komið að stórum verkefnum á sviði stefnumótunar. Þá hefur Martha Lilja öðlast þekkingu og reynslu á sviði jafnréttismála með vinnu við heildarendurskoðun á jafnréttisáætlun og innleiðingu jafnlaunastaðalsins við Háskólann á Akureyri, auk þess sem hún stýrði innri úttekt jafnlaunakerfis skólans fyrstu árin,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Hlutverk Jafnréttisstofu er að annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála í samræmi við lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð utan vinnumarkaðar og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, að því er segir um hlutverk stofnunarinnar á heimasíðu Janfréttisstofu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×