Innlent

Mótmælt við innanríkisráðuneytið

Jakob Bjarnar skrifar
Í hádeginu var þess krafist að Hanna Birna Kristjánsdóttir víki úr sæti innanríkisráðherra.
Í hádeginu var þess krafist að Hanna Birna Kristjánsdóttir víki úr sæti innanríkisráðherra. Vísir/Vilhelm
Nokkuð svalt var í veðri í hádeginu í dag, fyrir framan innanríkisráðuneytið, en hiti í mannskapnum sem þar var mættur til að mótmæla og krefjast þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra víki.

Boðað hafði verið til mótmælanna á sérstakri Facebook-síðu og höfðu hundrað manns boðað komu sína. Þeir voru umtalsvert færri eða um 20 til 30 manns. Á síðunni áðurnefndu var minnt á að fyrir tveimur og hálfum mánuði var minnisskjali um flóttamann á Íslandi lekið til fjölmiðla. „Fjölmiðlarnir sem birtu það sögðu að það kæmi úr innanríkisráðuneytinu. Þeir sem hafa séð blaðið segja augljóst að það komi þaðan. Innanríkisráðuneytið hefur ekki beðið fjölmiðla að leiðrétta það. Engu að síður hefur það dregið fæturna með að upplýsa þennan glæp.“

Rakið er að flóttamaðurinn hafi verið fluttur úr landi í lögreglufylgd: „Í ljósi þess að Hanna Birna Kristjánsdóttir og starfsfólk hennar sætir lögreglurannsókn vegna lekans og hafa gert ítrekaðar tilraunir til að takmarka umræðu um málið krefjumst við þess að hún víki á meðan á rannsókn stendur.“

Meðal þeirra sem mættir voru til að mótmæla var Mörður Árnason varaþingmaður Samfylkingarinnar en hann hefur látið málið til sín taka á Alþingi og beint fyrirspurnum til innanríkisráðherra vegna þess. Hverju er Mörður að mótmæla?

„Ég er eiginlega að taka undir kröfur fundarboðenda að Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra geri hreint fyrir sínum dyrum í þessu máli. Mér finnst það mikilvægast.“

Ein krafan sem sett er fram af hálfu þess hóps sem hér er mættur er sú að Hanna Birna víki, í ljósi þess að hún og ráðuneytið sætir lögreglurannsókn samkvæmt ósk ríkissaksóknara. Finnst þér að Hanna Birna eigi að víkja?

„Nú hef ég, öfugt við aðra fundarmenn, þau forréttindi að geta talað á morgun við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sjálfa á þinginu. En, málið er án fordæmis, menn hafa reynt að finna og leita; að ráðuneyti dómsmála sé undir lögreglurannsókn að tilhlutan ríkissaksóknara. Ég myndi í sporum innanráðherrans hugsa mig vandlega um hvað ég á að gera í því. Hún er ekki bara með því að taka ákvörðun er varðar hennar mál heldur gefa fordæmi fyrir framhaldið.“

Þó fremur svalt væri í veðri var hiti í fundarmönnum.Vísir/Vilhelm

Tengdar fréttir

Lekamálið komið til lögreglunnar

Ríkissaksóknari hefur framsent kæru, vegna leka á persónuupplýsingum hælisleitanda til fjölmiðla, til embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram á vef ríkissaksóknara.

Hvatt til óháðrar rannsóknar á lekamálinu

Innanríkisráðherra segir ítarlega rannsókn innan innanríkisráðuneytisins og stofnana þess sýna að minnisblað um hælisleitanda hafi ekki komið úr ráðuneytinu. Mörður Árnason er með minnisblaðið.

Ríkissaksóknari óskar eftir frekari gögnum um lekamálið

Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari, hefur óskað eftir frekari gögnum og upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu vegna kæru lögmanns hælisleitenda um leka á trúnaðargögnum úr ráðuneytinu.

Mun ekki tjá sig efnislega um lekamálið fyrr en niðurstaða liggur fyrir

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hefur ítrekað beðist undan því að mæta í viðtal í Kastljósið til að ræða trúnaðarbrest sem kom upp í innanríkisráðuneytinu. Hún hafði áður samþykkt að veita Kastljósi viðtal í vikunni en hefur hætt við það í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×