Innlent

„Komdu með vantraust, ég skora á þig“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar, segir það koma til greina að leggja fram vantrauststillögu gegn ríkisstjórninni í kjölfar þess að stjórnarflokkarnir ákváðu að draga til baka umsókn í Evrópusambandið. Þetta kom fram í þættinum Mín skoðun sem var á dagskrá Stöðvar 2 í dag, en þar ræddu þær Katrín og Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, um málið.

Mikael Torfason, stjórnandi þáttarins, spurði Katrínu hvort til greina kæmi að leggja fram vantrauststillögu í ljósi þess að formenn beggja ríkisstjórnarflokkanna hefðu lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um málið í aðdraganda síðustu kosninga.

„Það kemur náttúrulega allt til greina,“ sagði Katrín. „En miðað við hvernig þau hafa læst sig saman í þessu eru þau með 38 þingmenn. Það er alveg ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er svínbeygður þarna undir þannig að ég veit ekki hversu langt við kæmumst með vantraust.“

Katrín segist hafa miklar áhyggjur af áhrifunum sem málið gæti haft á EES-samninginn.

„Ég hef verið í pólitík mjög lengi og mér hefur aldrei nokkurn tímann liðið þannig að mig hafi langað að leggja fram vantraust gegn ríkisstjórn, en ég vil það núna. Ástæðan? Það er ekkert plan lagt fram á meðan einu hurðinni að einhverjum möguleikum á nýjum gjaldmiðli er lokað. Svo hef ég miklar áhyggjur af áhrifunum á EES-samninginn, sem er okkur lífnauðsynlegur.“

Vigdís brást við þessum orðum Katrínar. „Komdu með vantraust, ég skora á þig,“ sagði Vigdís.

Þátturinn í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×