Íslenski boltinn

Heimir: Það er enginn að fagna

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck eiga erfitt verkefni fyrir höndum.
Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck eiga erfitt verkefni fyrir höndum. Vísir/Daníel
„Við erum svona rétt að melta þetta,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, í samtali við Vísi nú rétt í þessu um dráttinn fyrir undankeppni EM 2016.

Heimir er staddur í Nice þar sem dregið var en Ísland er í A-riðli með Hollandi, Lettlandi, Kasakstan, Tékklandi og Tyrklandi. Erfiður riðill.

„Þetta er enginn glans riðill. Það er ekkert í uppáhaldi að fara til Kasakstan og Tyrkland. En þetta er svo sem ekkert verri riðill en hver annar,“ sagði Heimir.

„Við eru allavega ekkert að fagna. Þetta eru allt góðar fótboltaþjóðir. Þarna er kannski engin glans þjóð en þær eru allar mjög góðar í fótbolta og ferðalögin eru erfið,“ sagði Heimir.

Það eru einmitt ferðalögin sem Heimir hefur hvað mestar áhyggjur af. Leikdagar verða ákveðnir nú í framhaldi af drættinum og geta þeir skipt íslenska liðið miklu máli.

„Það verður eiginlega meira spennandi að sjá á eftir hvernig leikjunum verður raðað niður. Það getur t.d. verið mjög erfitt að spila í Kasakstan þegar það eru bara tveir dagar á milli leikja. Vonandi taka menn það til umhugsunar.“

„Ferðalag til og frá Kasakstand tekur sólarhring fyrir okkur og eftir það tekur það menn einn dag að jafna sig. Það er vonandi að menn taki mið af því hversu langt það er á milli Íslands og Kasakstan.“

„En það var svo sem alltaf vitað að myndum fá erfiðan riðil. Við hefðum getað verið heppnir og líka óheppnir. Það er allavega enginn að fagna hérna,“ sagði Heimir Hallgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×