Innlent

Utanríkisráðherra segir ekki gengið gegn vilja almennings

Hrund Þórsdóttir skrifar
Mynd/EU
Utanríkisráðherra hefur ekki áhyggjur af því að gengið sé gegn vilja almennings með því að draga umsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka, þrátt fyrir að meirihluti þjóðarinnar vilji klára viðræður við sambandið. Hann blæs á yfirlýsingar sérfræðinga um að ákvörðunin myndi útiloka Ísland frá sambandinu um langt skeið.

Verði þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu til baka samþykkt, verður Ísland fyrsta landið til þess. Sérfræðingar segja þá ólíklegt að aðildarumsókn frá Íslandi yrði tekin til greina af hálfu sambandsins, jafnvel næstu áratugi. Gunnar blæs á þetta.

„Þetta eru nú bara einhverjar getgátur. Í gær átti ég samtal við Stefan Fule stækkunarstjóra og nokkra af kollegum mínum á Norðurlöndum og tónninn í þeim var sá að Ísland er alltaf velkomið í Evrópusambandið en auðvitað ætlast menn til þess að þegar við sækjum um og ef við sækjum um aftur verði það gert á traustum grunni og með raunverulegum vilja til að fara inn. Um leið og sá vilji er til staðar myndi ég segja að dyrnar stæðu opnar,“ segir Gunnar Bragi.

Svo þú telur ekki að þessi ákvörðun myndi binda hendur næstu ríkisstjórnar ef þar kæmi upp vilji til að sækja um?

„Nei nei alls ekki," segir Gunnar Bragi

Þið vísið í að pólitískur vilji sé ekki til staðar á þingi fyrir að klára viðræðurnar en vilji almennings samkvæmt skoðanakönnunum er alveg klár, fólk vill klára viðræðurnar, væri ekki eðlilegt að þingið tæki tillit til þess?

„Þetta er dálítil klemma sem við virðumst vera í á Íslandi í dag. Það er rétt að skoðanakannanir sýna að meirihluti vill klára viðræðurnar en nánast sömu tölur segja að menn vilja ekki ganga í Evrópusambandið," segir utanríkisráðherra og bætir við: „Menn hafa nú ekki skilið þá nálgun úti í Evrópusambandinu að það sé hægt að fara að skoða sig um í búðinni og taka bara úr hillunum það sem maður vill.“

Þannig að þú hefur ekki áhyggjur af því að þið séuð að ganga gegn vilja almennings?

„Nei,“ svarar Gunnar Bragi.

Þú talar um það í fréttum í gær að þetta myndi ekki þýða slit á viðræðum, en er það ekki útúrsnúningur, þetta myndi þýða slit á aðildarviðræðum, ekki satt?

„Ég vil einfaldlega ekki nota orðið slit, því við erum að draga til baka umsókn,“ segir utanríkisráðherra. „Þú getur kallað þetta útúrsnúning, já já, en mér finnst alla vega réttara að kalla þetta að það sé verið að draga til baka umsókn,“ bætir hann við.

Gunnar segir ástæðulaust að óttast slæmar afleiðingar fyrir Ísland verði umsóknin dregin til baka. Þá eigi ákvörðunin ekki að koma á óvart, þetta sé sú niðurstaða sem stjórnarsáttmálinn hafi boðað.

Stóð aldrei til að standa við kosningaloforð um að þetta færi í þjóðaratkvæði?

„Ég kannast ekki við að hafa gefið það kosningaloforð að þetta færi í þjóðaratkvæði,“ segir Gunnar Bragi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×