Enski boltinn

Sherwood lét leikmenn heyra það

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Tottenham, gagnrýndi leikmenn sína harkalega eftir 4-0 tap liðsins gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eftir markalausan fyrri hálfleik hrundi leikur Tottenham í síðari hálfleik en varnarmenn liðsins gerðu sig seka um slæm mistök.

„Við náum ekki einu af efstu fjórum sætunum ef okkur tekst ekki að vinna bestu liðin. Það bara gerist ekki,“ sagði Sherwood við Sky Sports eftir leikinn í gær.

„Við unnum vissulega Manchester United og Everton sem eru á okkar reiki í töflunni. En það er ekki hægt að stóla endalaust á það að vinna litlu liðin. Þannig virkar það ekki.“

„Okkur gekk ágætlega á köflum en það voru of mörg mistök. Fólk frá félaginu er að ræða um fjórða sætið en þetta fólk þarf að vakna.“

Chelsea skoraði tvívegis snemma í síðari hálfleik og Younes Kaboul fékk að líta rauða spjaldið í aðdraganda síðara marksins. En hann segir að meira hafi komið til en það í kvöld.

„Þetta eru ekki nógu sterkir karakterar. Of margir þeirra eru of góðir við hvern annan. Strákarnir þurfa að sýna smá kjark og stíga út úr vinahlutverkinu. Ég get ekki verið sá eini sem er að rífast og skammast.“

Hann sagði þó að Kaboul hefði ekki skilið að fá rauða spjaldið. „Þetta var ekki víti og þar með ekki rautt spjald. Leikurinn var búinn eftir það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×