Enski boltinn

Arsenal áfram eftir öruggan sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arsenal er komið áfram í undanúrslit ensku bikarkeppninnar eftir öruggan 4-1 sigur á Everton í stórslag fjórðungsúrslita keppninnar.

Mesut Özil kom Arsenal yfir strax á sjöundu mínútu eftir sendingu Santi Cazorla en þetta var hans fyrsta mark fyrir félagið síðan hann skoraði í desember, einnig gegn Everton.

Þeir bláklæddu jöfnuðu þó metin á 32. mínútu eftir frábæran sprett Ross Barkley. Hann lagði boltann inn í teig og barst hann að lokum fyrir Romelu Lukaku sem skoraði af stuttu færi.

Það var svo um miðbik síðari hálfleiksins að Arsenal endurheimti forystuna. Gareth Barry braut á Alex Oxlade-Chamberlain og var vítaspyrna dæmd. Mikel Arteta, fyrrum leikmaður Everton, skoraði þrátt fyrir að hann þurfti að tvítaka spyrnuna.

Það var svo varamaðurinn Olivier Giroud sem skoraði tvívegis á síðustu tíu mínútum leiksins og innsiglaði þar með sigur Arsenal. Liðið er þar með komið áfram í undanúrslit bikarsins í fyrsta sinn síðan 2009.

Arsenal hefur ekki unnið titil síðan 2005 en liðið, sem er einnig í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, vonast til að binda endi á þá bið í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×