Innlent

Íbúum Ísafjarðar fækkaði um 4%

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mesta fólksfækkun á landinu á síðasta ári varð á norðanverðum Vestfjörðum. Á Ísafirði fækkaði um nærri eitthundrað manns. Bæjarstjórinn hvetur stjórnvöld til aðgerða, eins og að lækka orkuverð og flugfargjöld.

Íbúum Þingeyrar fækkaði um fimmtán manns, eða sex prósent milli ára, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Fólki fjölgaði hins vegar örlítið á Flateyri og Suðureyri og verulega í Bolungarvík, um 32, og Súðavík, um 23, meðan höfuðstaðurinn, Ísafjörður, mátti þola fækkun um 97 manns eða um fjögur prósent.  Á sunnanverðum Vestfjörðum varð örlítil fjölgun bæði í Vesturbyggð og á Tálknafirði.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, segir að það sé áfram verkefni að halda í fólk. Meira þurfi til, en hingað til hefur verið gert, að snúa þessu við.

Daníel segir fækkun ungs fólks sérstakt áhyggjuefni. Aldurspýramidinn, sérstaklega í minni byggðarlögunum, sé orðinn mjög skakkur. Algerlega vanti ungt fólk.

Bæjarstjórinn hvetur ríkisvaldið til að leggja sig fram um að jafna búsetukostnað milli landshluta. Hann segir margt einfalt hægt að gera, eins og að lækka flugfargjöld og orkukostnað, til að svæðið verði samkeppnishæft við höfuðborgarsvæðið.

„Þannig að fólk finni þetta í gegnum budduna. Ef við tökum þá ákvörðun að við ætlum að halda uppi byggð hérna þá verða þeim orðum að fylgja einhverjar athafnir.“ Það þurfi að búa til meiri hvata til þess að ungt fólk sérstaklega vilji flytja vestur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×