Gunnar snýr nú aftur í hringinn eftir langvarandi meiðsli en síðast barðist hann við Jorge Santiago í London fyrir rúmu ári.
Þann bardaga vann Gunnar eins og nær alla á sínum MMA-ferli en þessi rólyndis stríðsmaður hefur unnið ellefu MMA-bardaga og gert eitt jafntefli. Rússinn öflugi hefur unnið tólf og tapað einum.
Gunnar flaug út í morgun ásamt Haraldi Nelson, föður sínum og umboðsmanni, og Jóni Viðari Arnþórssyni, formanni bardagaíþróttafélagsins Mjölnis sem Gunnar keppir fyrir.
Fram kemur á vef MMA-frétta að nánast sé orðið uppselt á kvöldið í O2-höllinni á laugardaginn en bardagi Gunnars verður sá fyrsti á aðalhluta kvöldsins. Hann ætti því að berjast upp úr klukkan 20.00.
Bardaginn verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eins og allir bardagar Gunnars Nelson næstu þrjú árin.
