Innlent

Krefjast friðsamlegra lausna í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Daníel
Íslensk stjórnvöld leggja þunga áherslu á að Rússar láti umsvifalaust af öllum hernaðaraðgerðum í Úkraínu og fari að alþjóðalögum. Gunnar Bragi Sveinsson segir það skýra kröfu að rússnesk stjórnvöld leiti sátta með friðsamlegum hætti í stað þess að grípa til vopnaðar íhlutunar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Fastaráð NATO kom saman í dag á sérstökum fundi til að ræða ástandið á Krímskaga. Í kjölfar fundarins fordæmdi ráðið hernaðaraðgerðir Rússa. Þá lýsti ráðið yfir þungum áhyggjum yfir ákvörðun rússneska þingsins sem heimili hernaðaríhlutun í Úkraínu.

Í yfirlýsingu fastaráðsins segir að hernaðaraðgerðir rússnesk liðsafla í Úkraínu brjóti í bága við alþjóðalög. Þá gangi það meðal annars gegn þeim viðmiðum sem starf NATO-Rússlandsráðsins byggist á. Rússar eru hvattir til að draga úr spennu á svæðinu og ráðið hvetur deiluaðila til að leita samstundis friðsamlegrar lausnar á tvíhliða grundvelli.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur sent formanni utanríkismálanefndar, Birgi Ármannssyni, beiðni um að kallað verði til nefndarfundar á morgun. Þar verði rætt um málefni Úkraínu og mikilvægt sé að utanríkisráðherra og sérfræðingar ráðuneytisins mæti.

„Ekki þarf að fjölyrða um alvarleika ástandsins í Úkraínu. Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld sýni samstöðu og stuðning við úkraínska þjóð á þessum víðsjáverðu tímum,” segir Guðlaugur Þór í beiðninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×