Innlent

Svikin loforð vega þyngra en viðræðuslit

Hátt í átta þúsund manns mættu á samstöðufund sem haldin var á Austurvelli í dag þar sem ákvörðun stjórnvalda um að draga tilbaka umsókn Íslands að Evrópusambandinu var mótmælt. Þetta er í fimmta sinn á sex dögum sem blásið er til mótmæla vegna þessa.

„Þegar ég gekk til kosninga þá treysti ég því að það sem að stjórnmálamenn segja og lofa mjög skýrt komist til verka. Ég veit ekki hvort ég vil fara inn í ESB en ég fá að kjósa um það og það sem mestu skiptir er að mér var lofað að ég fengi að gera það. Þegar menn ætla sér ekki að standa við það sem þeir lofuðu þá vil ég bara fá að kjósa aftur í ríkisstjórn,“ segir Sigurður Hólm Gunnarsson, formaður Siðmenntar, sem var meðal mótmælenda.

Mikill fjöldi fólks mótmælti í blíðskaparveðri á Austurvelli í dag. Dagskráin var á milli þrjú og fjögur en samkvæmt samkvæmt upplýsingum frá yfirvarðstjóra lögreglunnar á staðnum voru á milli sjö og átta þúsund manns á staðnum þegar mest var.

Sigurður Pálsson skáld var meðal þeirra sem tóku til máls á samstöðufundinum. Í ræðu hans voru kosningaloforð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bjarna Benediktssonar spiluð í hátalarakerfi en þetta vakti mikinn fögnuð viðstaddra. Illugi Jökulsson rithöfundur tók einnig til máls auk Margrétar Guðmundsdóttur, forstjóra Icepharma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×