Fótbolti

Fyrrum FIFA-stjórnandi borinn þungum sökum | Myndband

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Franz Beckenbauer, Sepp Blatter og Jack Warner árið 2010.
Franz Beckenbauer, Sepp Blatter og Jack Warner árið 2010. Vísir/Getty
Jack Warner, fyrrum varaforseti FIFA, er sakaður um að hafa selt Katar HM-atkvæði sitt dýrum dómi.

Þessu er haldið fram í enska dagblaðinu The Telegraph í dag en blaðið segist hafa gögn undir höndum sem sanni að Warner og fjölskylda hans hafi þegið tæpar tvær milljónir Bandaríkjadala fyrir að greiða Katar atkvæði þegar ákveðið var hvar HM 2022 færi fram.

Málið mun vera í rannsókn hjá bandarísku alríkislögreglunni, FBI, en Warner hefur lengi verið grunaður um spillingu. Hann hætti hjá FIFA árið 2011 eftir að hafa verið varaforseti í fjórtán ár.

Warner var einn 22 meðlima framkvæmdarstjórnar FIFA sem ákvað með atkvæðagreiðslu árið 2010 að HM 2018 færi fram í Rússlandi og svo í Katar fjórum árum síðar.

Mohamed Bin Hammam sat einnig í framkvæmdarstjórninni en hann er frá Katar og var forseti knattspyrnusambands Asíu frá 2002 til 2011. Hann er sakaður um að hafa staðið að mútugreiðslunum í gegnum fyrirtæki á hans vegum.

Hér fyrir neðan má sjá myndband The Telegraph sem fer yfir málið með ítarlegum hætti.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×