Innlent

Útlendingur í eigin landi

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þingið á Krímskaga hefur formlega lýst yfir sjálfstæði frá Úkraínu og beðið um að sameinast Rússlandi. Úkraínsk kona búsett hér á landi segir furðulegt að hugsa til þess að hún hafi komið til Íslands sem Úkraínumaður en fari líklega héðan sem Rússi.

97% íbúa Krímskaga ákváðu með atkvæðagreiðslu í gær að ganga Rússum á hönd og kljúfa sig frá Úkraínu en ríkisstjórn Úkraínu viðurkennir ekki niðurstöðu kosningarinnar.

ESB hefur þegar lýst því yfir að atkvæðagreiðslan hafi verið ólögleg en rússneskar hersveitir tóku öll völd á skaganum í síðasta mánuði. Barack Obama bandaríkjaforseti sagði í yfirlýsingu í dag að alþjóðasamfélagið myndi aldrei viðurkenna kosninguna og hafa bandarísk yfirvöld fryst eignir ellefu einstaklinga sem sagðir eru bera ábyrgð á atkvæðagreiðslunni og sett á þá farbann.

Usniie Ganiieva er frá bænum Feodosiya á Krímskaga. Hún hefur verið búsett hér á landi í tvö og hálft ár og leggur stund á nám í tölvunarfræði í Háskóla Íslands. Fjölskylda Usniie býr á Krímskaga, sem er nú stjórnað af Rússlandi. Hún segir líf þeirra hafa breyst töluvert síðasta sólarhringinn.

„Þau voru ein af þeim fáu sem vildu ekki að Krímskagi yrði hluti af Rússlandi svo þetta er furðuleg staða. Allt í einu er Úkraína ekki lengur landið þeirra heldur Rússland,“ segir Usniie. 

Hún segir skrítið að hugsa til þess að líða eins og útlendingi í eigin landi ef úkraínskt ríkisfang hennar verður rússneskt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×