Innlent

Sendiherrar Noregs og Færeyja kallaðir á fund

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/E.ÓL
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lét í dag kalla sendiherra Noregs og fulltrúa Evrópusambandsins og Færeyja á fund í utanríkisráðuneytinu.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá ráðuneytinu í dag.

Tilgangur fundarins var að gera alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið hefði verið að nýgerðu samkomulagi um makrílveiðar sem stuðlar að veiðum langt fram úr ráðleggingum Alþjóðahafrannsóknarráðsins. „Og stefnir sjálfbærri nýtingu stofnsins í hættu,“ eins og þar kemur fram.

Gunnar Bragi sagði meðal annars að til að tryggja réttmætan hlut Íslands á grundvelli sjálfbærra veiða hafi Íslendingar tekið þátt í samningaviðræðum um makríl allt fram í miðja síðustu viku. Þá var fundi strandríkjanna slitið.



„Ísland og Evrópusambandið höfðu náð samkomulagi á grundvelli sjálfbærra veiða sem ESB snýr nú baki við.  Svo virðist sem viðsemjendur okkar hafi unnið að annars konar samkomulagi á bak við tjöldin,“ sagði Gunnar Bragi.

Hann sagði að Íslendingum væru settir afarkostir um að ganga inn í samkomulag sem gengi út á að stunda ofveiði á makríl, að minnsta kosti fyrsta kastið. „Niðurstaðan er sú að allir tapa. Við höfum verið tilbúin til viðræðna á grundvelli ábyrgrar fiskveiðistjórnunar. Evrópusambandið var með okkur í því þangað til í gær.“

„Sjálf auðlindin er í hættu með þeirri ofveiði sem samkomulagið leggur grunninn að,“ sagði ráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×