Innlent

Nálgast 50 þúsunda undirskrifta markið

Jakob Bjarnar skrifar
Jón Steindór. Finnst sérkennlegt að ekki skrái sig fleiri í ljósi þess að 70-80 prósent eru á því að kjósa eigi um framhald viðræðna.
Jón Steindór. Finnst sérkennlegt að ekki skrái sig fleiri í ljósi þess að 70-80 prósent eru á því að kjósa eigi um framhald viðræðna.
Jón Steindór Valdimarsson, einn forkólfa undirskriftasöfnunarinnar sem finna má á thjod.is, þar sem skorað er á Alþingi að leggja framhald viðræðna við Evrópusambandið í dóm allra Íslendinga með þjóðaratkvæðagreiðslu, segir það rétt; verulega hafi hægt á undirskrifasöfnuninni að undanförnu, en hún hefur nú staðið í þrjár vikur. Hann segir það skrítið sé horft til viðhorfskannana sem birst hafa að undanförnu sem sýna að stuðningur við þetta sjónarmið liggi á bilinu 70 til 80 prósent en undirskrifasöfnunin telur rúmlega 20 prósent kosningabærra einstaklinga. Jón Steindór kann engar einhlítar skýringar á því af hverju þeir sem vilja áframhald viðræðna veigri sér við því að setja nafn sitt við undirskriftasöfnunina.

Með stærstu undirskriftasöfnunum

Ekki ber þó að skilja Jón Steindór sem svo að bilbug sé á honum að finna. Hann telur spurður að 50 þúsunda markið náist um helgina. „Þetta er ótrúlegur árangur. Stærstu undirskrifasafnanir sögunnar eru ekki mikið stærri en þessi. Við höfum ekki þetta sama bolmagn og til dæmis þeir sem stóðu fyrir undirskriftasöfnun um flugvöllinn, þar lágu fyrir listar í öllum helstu verslunum og bensínstöðvum og viðamikið átak fór fram á landsbyggðinni, sem ekki er okkar sterkasta vígi, ef svo má segja. Þetta er sennilega helsta skýringin. Til þess að ná í þessar hæstu hæðir þarf fólk út um allt og við höfum ekki þann skipulagða her. Þetta er fyrst og fremst skýringin á því að við rjúkum ekki upp í 60 til 70 þúsund,“ segir Jón Steindór.

Í úttekt Fréttablaðsins sem birtist 28. febrúar 2014 kemur fram að stærsta undirskriftasöfnunin er Reykjavíkurflugvöllur áfram á sínum stað (2013) sem telur 69.772 manns, þá Icesave (2009) 56.089 og Varið land (1974) sem 55.522 skrifuðu undir.

Stór hluti fylgist ekki með þjóðmálaumræðunni

Jón Steindór bendir auk þess á að þeir á thjod.is hafi slegið Íslandsmet í hraða. „Ég fullyrði það að engin undirskrifasöfnun hefur farið eins hratt af stað. 25 þúsund skrifðu undir fyrstu tvo sólarhringana og 45.000 voru búnir að skrifa undir 6. mars, en við byrjuðum 23. febrúar. Þetta virðist eðli allra svona kannana; menn fara hratt af stað og svo hægist á. Eðlilega. Kúrfan er þannig að hún fer mjög hratt upp, svo smáslaknar á henni. Og nú tikkar mjög hægt inn. Þannig er bara eðli slíkra safnana og sama allstaðar með það.“

Til viðmiðunar má líta til undirskriftasöfnunar sem er á skynsemi.is, „sem Heimsýnarfólk, sem er okkur andsnúið ef svo má segja, stóð fyrir. Þeirri undirskriftasöfnun hefur aldrei verið skilað inn en þeim tókst að safna 13 þúsund undirskriftum í söfnun sem var opin í tvö ár.“

Jón Steindór bendir á athyglisverða staðreynd sem er sú að fjölmargir virðast ekki vita að söfnunin standi yfir. Þetta kom honum mjög á óvart. „Við prufuðum að standa  í Kringlunni um síðustu helgi og það kom okkur á óvart hversu margir vissu bara ekkert um hvað við vorum að tala. Samt höfum við verið með auglýsingar á vefmiðlum og heilsíðuauglýsingar í blöðum. Og verið virk á Facebook. Svo virðist sem það séu ekkert svo margir á Facebook þrátt fyrir allt. Svo virðist sem stór hluti þjóðarinnar sé ekkert að fylgjast með þjóðmálaumræðunni. Vissi ekkert um hvaða undirskriftasöfnun við vorum að tala um. Fólk er bara búið að fá uppí kok og nennir ekki að hlusta á þetta röfl.“

Undirskrifir lagðar fram innan tíðar

Jón Steindór og félagar munu afhenda undirskriftirnar þinginu innan tíðar. „Þá væntanlega forseta þingsins sem fulltrúa þess. Áskorunin beinist að þinginu en ekki ríkisstjórninni, enda teljum við þetta mál þjóðarinnar fyrst og fremst og svo þingsins. Við erum ekki alveg búnir að tímasetja þetta. Fer eftir því hvernig mál þróast en ég reikna með því að við komum þessu til þingsins þegar utanríkismálanefnd er komin af stað í sinni umfjöllun um nýlega skýrslu um viðræðurnar. Við munum passa okkur á því að afhenda þetta í tíma áður en drastískar ákvarðanir eru teknar.“

Eitthvað hefur borið á því að menn hafi komist að því að þeir hafi verið skráðir að sér forspurðum. Jón Steindór segir það reyndar sáralítið. „Við erum með þannig kerfi að það er hægt að slá inn kennitöluna og ef hún er skráð og þú ekki staðið fyrir því, sendirðu boð um það og undirskriftin er þá strax fjarlægð. Teljandi er á fingrum annarrar handar tilkynningar þess efnis og virðast lítil brögð hafa verið af því. Alltaf er hætt við að menn gerist full bráðir og vilji hjálpa til. Sem er vitaskuld mjög óheppilegt. Svo er til í myndinni, og þekkist í öllum söfnunum, að menn vilji gera svona safnanir tortryggilegar með því að skrá Andrés Önd og Mikka mús. Það er ekki hægt hjá okkur en menn geta gripið til þess að senda inn nokkrar kennitölur til að skemma. Ég trúi því ekki að menn reyni það.“


Tengdar fréttir

Þingmenn geta bundið sjálfa sig

Þorsteinn Pálsson og Sigurður Líndal eru ósammála forsætisráðherra og telja núverandi Stjórnarskrá ekki koma í veg fyrir að hægt sé að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Stjórnarskrá stöðvar ekki þjóðaratkvæði

Sigurður Líndal lagaprófessor er ósammála forsætisráðherra og segir vel hægt að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB. Björg Thorarensen lagaprófessor segir þetta ekki geta átt við um þingsályktun.

Undirskriftasöfnun nálgast viðmiðunarmörk

Sigurður Líndal segir menn leggja augu á 10 prósent kosningabærra manna varðandi kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu sem eru tæp 24 þúsund manns. Undirskriftir nálgast 23 þúsund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×