Erlent

Þú getur tekið þátt í leitinni að malasísku flugvélinni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Reiknirit safnar saman staðsetningum sem margir hafa merkt við og munu sérfræðingar skoða merkingarnar nánar.
Reiknirit safnar saman staðsetningum sem margir hafa merkt við og munu sérfræðingar skoða merkingarnar nánar. mynd/getty/digitalglobe
Bandaríska fyrirtækið DigitalGlobe hefur gert fólki það kleift að leita að týndu farþegavél Malaysian Airlines sem ekkert hefur spurst til síðan á laugardag.

Hjálpsamir geta gert það heima í stofu en hægt er að skoða gervihnattamyndir af meira en 3.000 ferkílómetra hafsvæði þar sem talið er að flugvélin hafi farist. Notendur geta stækkað myndirnar og merkt við það sem þeim finnst grunsamlegt.

Reiknirit safnar síðan saman staðsetningum sem margir hafa merkt við og munu sérfræðingar skoða merkingarnar nánar.

„Þetta er góð aðferð fyrir þá sem vilja hjálpa en komast ekki á staðinn,“ segir Luke Barrington hjá DigitalGlobe í samtali við ABC-fréttatofuna.

Álagið á leitarvefsíðunni hefur verið svo mikið frá því hún var sett í loftið að hún lá niðri fyrr í dag, en hún er nú komin aftur upp.

Hér getur þú leitað að týndu flugvélinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×