Íslenski boltinn

Halldór Orri samdi við sænskt lið | Rauschenberg kemur aftur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stjarnan hefur orðið fyrir mikilli blóðtöku í Pepsi-deild karla í fótbolta en Halldór Orri Björnsson, einn albesti leikmaður liðsins undanfarin ár, er búinn að semja við sænska liðið Falkenbergs FF.

Þetta kemur fram á heimasíðu Stjörnunnar en þar segir að Halldór hafi samið til eins árs og verði því eðlilega ekki með Garðabæjarliðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Falkenbergs FF er nýliði í sænsku úrvalsdeildinni en þar hefur liðið aldrei verið áður. Það vann 1. deildina á síðustu leiktíð og reynir nú að styrkja sig fyrir átökin í efstu deild.

„Þetta var mjög erfið ákvörðun þar sem ég er búinn að vera í Stjörnunni alla mína ævi og spennandi sumar framundan hjá Stjörnunni en ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir á mínum ferli,“ segir Halldór Orri á vef Stjörnunnar en hann hefur leikið 180 leiki fyrir uppeldisfélagið í efstu og næstefstu deild og skorað í þeim 65 mörk.

„Við óskum Halldóri Orra góðs gengis í Svíþjóð. Hann hefur reynst okkur frábærlega undanfarin ár. Við vinnum nú að því að fá til okkar leikmann til að fylla í skarðið fyrir hann.“, segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar.

Stjörnumenn geta þó leyft sér að brosa í gegnum tárin því liðið hefur samið aftur við danska miðvörðinn MartinRauschenberg sem spilaði með liðinu síðasta sumar. Hann verður aftur með Garðbæingum í Pepsi-deildinni á komandi leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×