Innlent

Velja á milli stelpna í Versló

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Hörður
Búið er að setja upp vefsíðu með myndum af kvenkyns nemendum í 4. bekk Verslunarskóla Íslands. Þar geta notendur hverju sinni valið á milli tveggja stúlkna sem raðast svo í topp tíu lista.

Síðan heitir peysopicker.com, sem vísar til Peysufatadagsins sem haldinn er í skólanum árlega. Peysufatadagurinn í ár verður haldinn hátíðlegur þann 29. apríl.

„Þetta er með ólíkindum, óþverraskapur,“ segir Ingi Ólafsson, skólastjóri Verslunarskólans í samtali við Vísi.

„Ég hef reynt í allan morgun að finna hver stendur að baki þessarar síðu og allir starfsmenn skólans eru með fálma úti. Það hefur þó ekki gengið.“

Þá segist Ingi vonast til þess að nemendur skólans muni segja frá hver standi að baki síðunni.

„Það er nú bara þannig í svona samfélagi að einhverjir nemendur vita þetta og munu koma fram. Það er alveg jafn sorglegt fyrir það að einhver skuli láta svona,“ segir Ingi Ólafsson.

Lén síðunnar var skráð í gegnum bandarískan vefhýsil þann 26. mars og var greitt fyrir með Bitcoin. Þá hefur stofnandi hennar keypt aðgang að nafnleyndarþjónustu Net Earth og skráð lénið þar. Því er næsta ómögulegt að komast að því hver eigandi síðunnar sé nema einhver greini frá því.

Sambærileg síða var gerð í fyrra og þá með .is léni.

Uppfært klukkan 14:15: Síðan hefur verið tekin niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×