Íslandsmeistarinn Norma Dögg Róbertsdóttir segir mikla samkeppni í fimleikunum ekki spila samskiptunum stelpnanna á æfingum eða í keppni. „Við náum samt að vera vinkonur á æfingum sem skiptir rosalega miklu máli. Við náum að hvetja hverja aðra og vera ánægðar fyrir hönd hinna. Það er skemmtilegt líka," segir Norma en viðurkennir að það geti reynt á þegar úrslitin ráðast á minnsta smáatriði.
„Það er alltaf erfitt en þetta er okkar önnur fjölskylda og það eru allir ánægðir þegar hinum gengur vel," segir Norma sem var sátt með helgina. „Þetta er mjög skemmtilegt og ég er mjög sátt," sagði Norma sem vann keppni í stökki í dag auk þess að vinna fjölþrautina í fyrsta sinn á laugardaginn.
Thelma Rut Hermannsdóttir varð að sjá eftir Íslandsmeistaratitlinum í fjölþraut í gær eftir fjögurra ára sigurgöngu en hún vann tvö gull á áhöldum í dag því enginn gerði betri æfingar á gólfi eða jafnvægisslá.
„Það er rosalega gott að það sé komin svona góð keppni á milli okkar. Það hvetur mann bara áfram að vera harður við sjálfan sig á æfingum og æfa betur. Hver æfing skiptir máli og máður þarf núna að fara að setja erfiðar æfingar inn í rútínurnar hjá sér svo það skili manni hærri stigum. Það er rosalega gott að fá samkeppni. Það er ekkert gaman að keppa ef að það er enginn samkeppni," segir Thelma Rut.
Það verður rætt meira við stelpurnar í Fréttablaðinu á morgun.
