Innlent

Byggðarkvóti Vísis hf. 1.300 tonn hingað til

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Starfsmenn Vísis hf. við fiskvinnslu á Þingeyri.
Starfsmenn Vísis hf. við fiskvinnslu á Þingeyri. Vísir/Daníel
Útgerðarfyrirtækið Vísir hf. hlaut um 1.300 tonn í byggðakvóta frá Þingeyri frá árinu 2000 til dagsins í dag. Tonnin 1.300 jafngilda um 11-17 milljónum króna á ári ef miðað er við leiguverð á þorsktonni árið 2000. Samanlagt yfir 14 ára tímabil eru þetta 130-190 milljónir í rekstrarlegan styrk frá Ísafjarðarbæ.  Þetta kemur fram í frétt BB.is.

Nú áætlar útgerðarfyrirtækið að flytja alla fiskvinnslu sína til Grindavíkur. Vísir hf. hefur starfsemi á Þingeyri, Djúpavogi og Húsavík, auk Grindavíkur. Á hverjum þessara staða starfa tugir manns við fiskvinnslu Vísis hf.

Á Þingeyri vinna allt að 50 manns hjá Vísi hf. en bæjarsamfélagið í heild sinni telur um 265 manns. Því gæti orðið talsverður brottflutningur ef Vísir hf. flytti starfsemi sína úr bænum.

Í viðtali við Vísi.is segir Daníel Jakobsson bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar honum finnist ekki koma til greina að Vísir hf. yfirgefi svæðið.

„Í mínum huga kemur þessi tillaga þeirra bara á engan hátt til greina," segir Daníel. „Þeir komu þarna inn á byggðarforsendum og hafa fengið mikinn byggðarkvóta til þess að hefja þessa vinnslu hérna. Það er skilyrðiskrafa okkar að ef þeir ætla að fara af svæðinu að þeir skilji eftir það sem til var stofnað þegar þeir hófu starfsemi þarna."

Að sögn Daníels munu fulltrúar Vísis hf. funda með bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar á morgun. Vonar Daníel að hægt sé að auka samstarf milli bæjarstjórnar og útgerðar svo hægt sé að vinna úr málinu á sem farsælastan hátt.

„Ég ætla bara að vona að þeir nái áttum þessir menn og reyni að vinna þetta með okkur," segir Daníel. „Þá fáum við að vita hvað Vísismenn hafa í huga og á hvaða forsendum þeir eru að gera þetta."


Tengdar fréttir

„Skaði sem ekki verði bættur“

Framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Vísis hf segir að engin samfélagsleg ábyrgð sé fólgin í því að halda áfram rekstri sem ekki gangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×