Innlent

Áfengi svo dýrt að unglingar snúa sér frekar að kannabis

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetutr
Áfengi er orðið svo dýrt á Íslandi að unglingar reykja kannabis miklu frekar því aðgengi að því er miklu auðveldara, samkvæmt fyrrverandi lögreglumanni og núverandi Alþingismanni. Þetta kom fram í fréttum Bylgjunnar í dag.

Vilhjálmur Árnason, Alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, segir nauðsynlegt að lögreglan rannsaki peningaþvætti í meira mæli því fíkniefnaheimurinn snúist fyrst og fremst um peninga.

Vilhjálmur starfaði í mörg ár í lögreglunni áður en hann var kjörinn á Alþingi. Hann hefur látið löggæslumálin til sín taka en þar hefur hann sérstakar áhyggjur af fíkniefnavandanum á meðal barna og unglinga.

„Krakkar eru farnir að nota kannabis miklu frekar en áfengi, því það er orðið svo dýrt og erfitt að nálgast það. Aftur á móti er miklu erfiðara fyrir foreldra, vinnuveitendur og aðra að sjá hverjir eru undir áhrifum kannabis, en þeir sjá um leið vandamál ef einhver er í of mikilli áfengisneyslu,“ sagði Vilhjálmur.

Þá segir hann aðgengi að eiturlyfjum vera gott.

„Það virðist vera nokkuð gott. Það er heimsendingaþjónusta, þannig að það getur ekki verið betra en það.“

Einnig segir Vilhjálmur nauðsynlegt að lögreglan auki rannsóknir á peningaþvætti, því fíkniefnaheimurinn snúist fyrst og fremst um peninga.

„Það eru höfuðpaurarnir sem nást í gegnum það. Þeir eru ekki að nást með því að elta þá sem eru á götunni. En ef við förum að eltast við fjármunina sem eru í þessu þurfum við að setja verulega aukningu í efnahagsbrot og peningaþvætti og slíkt.

„Þetta er bara samkeppnismarkaður drifinn áfram af gróðasjónarmiði. Við þurfum að reyna að komast að rót vandans. Hvernig getum við stöðvað þennan gróða. Ef það tekst hljótum við að minnka framboðið og með minna framboði verður minni neysla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×