Innlent

Krafan um takmarkanir á innflutningi dýra hefði fengið efnislega meðferð

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/gva
Mikill undirbúningur fór fram af hálfu Íslands á sviði landbúnaðarmála vegna aðildarumsóknarinnar og umtalsverð þekkingaruppbygging átti sér stað á flestum stigum stjórnsýslunnar en þetta kemur fram í skýrslu Alþjóðastofnunarinnar um aðildarviðræðurnar við ESB.

Fram kemur að samningsafstaða hafi verið á lokastigum í janúar 2013, þegar ákveðið var að setja aðildarviðræðurnar í „hægagang“ framyfir alþingiskosningar.

Viðræður hefðu að miklu leyti snúist um hversu rausnarlegan stuðning Ísland gæti fengið úr sjóðum ESB; hversu mikinn innlendan stuðning Ísland fengi heimild til að veita íslenskum landbúnaði og hversu mikinn framleiðslutengdan stuðning hefði mátt veita. Fordæmi hefðu að líkindum verið sótt í norðurslóðaákvæði aðildarsamnings Finnlands.

Fram kemur í skýrslunni að í samningsafstöðu vegna kafla um matvælaöryggi og dýra- og plöntuheilbrigði sé  farið fram á tíu undanþágur, sérlausnir og aðlögunartímabil. Þar sem hlé var gert á viðræðum áður en viðbrögð ESB komu við samningsafstöðunni sé erfitt að meta líkur á að kröfur Íslands hefðu náðst í gegn. Fyrir Ísland virðist sem mikilvægustu kröfurnar hafi snúið að innflutningi lifandi dýra og innflutningi á fersku kjöti.

Skýrsluhöfundar telja líklegt að krafa Íslands um takmarkanir á innflutningi lifandi dýra hefði fengið efnislega meðferð og ef Ísland hefði getað sýnt fram á að hún væri byggð á vísindalegum grunni þá hefði verið fundin leið til að mæta kröfunni.

Þannig undanþága myndi þó verða endurskoðuð með reglulegu millibili með hliðsjón af mögulegum breytingum á hinu vísindalega mati.


Tengdar fréttir

Vigdís segir rök í ESB-skýrslu vera haldlaus

"Mér finnst þessi gagnrýni afskaplega ómakleg og bið hana vinsamlega að lesa úttektina áður en hún kemur með þvílíkar yfirlýsingar," segir einn skýrsluhöfunda

Ísland áhrifalaust með EES-samningum

Pia Hanson, forstöðukona Alþjóðamálastofnunar, gagnrýndi EES-samninginn þegar hún kynnti skýrslu um Evrópumál. Hún sagði Ísland hafa innleitt tvo þriðju laga og reglna Evrópusambandsins nú þegar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×