Enski boltinn

Rodgers: Við ætlum bara að njóta leiksins gegn City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Brendan Rodgers segir pressuna á City.
Brendan Rodgers segir pressuna á City.
Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, segir meiri pressu á Manchester City en sitt lið fyrir stórleikinn næsta sunnudag þegar liðin eigast við á Anfield í Liverpool.

Leikurinn er algjör lykilleikur í baráttunni um Englandsmeistaratitilinn en Liverpool er á toppnum með 74 stig eftir 33 leiki. City er í þriðja sæti með 70 stig en á tvo leiki til góða. Chelsea er þar á milli með 72 stig eftir 33 leiki.

„Við vitum að þetta er stórleikur en við höfum staðið okkur vel í stórleikjunum á þessu tímabili,“ sagði Rodgers eftir sigurinn á West Ham í ensku úrvalsdeildinni í gær þar sem Steven Gerrard skoraði bæði mörk liðsins úr vítaspyrnum.

„Manchester City fjárfesti til að vinna úrvalsdeildina og Meistaradeildina. Þeir verða á höttunum eftir góðum úrslitum á sunnudaginn en við ætlum bara að njóta leiksins,“ sagði Rodgers.

Vincent Kompany, miðvörður og fyrirliði Manchester City, var gestur í þættinum Match of the Day á laugardagskvöldið en þar sagði hann Liverpool vera besta liðið sem hann hefur mætt á tímabilinu.

Liverpool á engu að síður enn eftir að vinna City undir stjórn Rodgers. Liðin skildu jöfn, 2-2, í báðum leikjunum á síðasta tímabili og þegar þau mættust á öðru degi jóla á yfirstandandi leiktíð vann City, 2-1, á heimavelli.

„Það er áhugavert að heyra Vincent segja þetta. Við áttum að vinna þá á útivelli fyrr á leiktíðinni og í fyrra. Við áttum einnig að vinna City á heimavelli í fyrra. Nú verðum við bara að vera óttalausir en samt virða mótherjann. Þetta snýst allt um okkur,“ segir Brendan Rodgers.


Tengdar fréttir

Liverpool aftur á toppinn

Liverpool lagði West Ham 2-1 á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í dag. Steven Gerrard skaut Liverpool á toppinn á ný með tveimur vítaspyrnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×