Sport

Ólympíufarinn vann sprettgönguna á Skíðamóti Íslands 2014

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Sævar Birgisson vann öruggan sigur.
Sævar Birgisson vann öruggan sigur. Vísir/Getty
Sævar Birgisson, Ólympíufari, vann fyrstu keppnisgrein Skíðamóts Íslands sem hófst í Hlíðarfjalli á Akureyri í dag en keppt var í sprettgöngu. Sævar keppti í sömu grein á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í febrúar.

Andri Steindórsson, SKA, AlbertJónsson, SFÍ, Brynjar Leó Kristinsson, SKA, Gísli Einar Árnason, SKA, VadimGusev SKA og Sævar kepptu til úrslita.

Sævar klikkaði illilega í ræsingunni og var nánast síðastur eftir hana en eftir um 250-300 metra var hann kominn í forystu og vann á endanum sannfærandi sigur.

Spennan var mun meiri um 2.-3.sætið en þar börðust Akureyringarnir Brynjar, Gísli og Vadim og réðust úrslitin ekki fyrr en á marklínunni. Það munaði aðeins einni sekúndu á þeim þremur.

Svo fór að Vadim hafnaði í öðru sæti en hann fór brautina á tveimur mínútum og einni sekúndu. Brautin var einn kílómetri að lengd. Gísli Einar Árnason fékk bronsið en hann kom í mark á sama tíma. Sævar fór brautina á einni mínútu og 57 sekúndum.

Í kvennaflokknum var skemmtileg keppni en í úrslitin komust Elena Dís Víðisdóttir, SFÍ, GuðbjörgRós Sigurðardóttir, SFÍ, KatrínÁrnadóttir, Ullum, og VeronikaLagun SKA.

Veronika kom fyrst út úr ræsingunni og jók forskotið jafnt og þétt allan tímann. Hún kom í mark á tveimur mínútum og 26 sekúndum og er Íslandsmeistari 2014 í sprettgöngu kvenna. Katrín Árnadóttir fékk silfrið og Elena Dís Víðisdóttir bronsið.

Í kvöld fer fram setningarathöfn kl. 20:00 í Hofi og svo á morgun heldur keppni áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×