Innlent

„Business as usual“

Jón Júlíus Karlsson skrifar
„Það eru vissulega vonbrigði að bandamenn til margra ára skuli bregðast við með þessum hætti,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra. Kristján Loftsson hjá Hval hf. segir ekkert nýtt í hótunum Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, sem í minnisblaði sínu til bandaríska þingsins, gagnrýnir hvalveiðar Íslendinga á langreyði harðlega.

Sigurður Ingi segir engan vafa leika á því að veiðarnar á langreyði séu löglegar. Sú fullyrðing Bandaríkjaforsta að Íslendingar séu að veiða dýrategund í útrýmingarhættu sé rangt.

„Sannarlega er þessi stofn í útrýmingarhættu í Suður-Atlantshafi en stofninn sem er á norðursvæðum er í engri úttrýmingarhættu og er ekki á neinum slíkum lista. Þetta er einfaldlega rangt,“ segir Sigurður Ingi.

Ekkert nýtt

Fyrirtækið Hvalur hf. er tilgreint í minnisblaði Obama. Flutningaskipið Alma siglir nú með um 2000 tonn af hvalkjöti til Japan. Venjulega fara flutningaskip á þessari leið í gegnum Súezskurðinn en vegna farmsins þarf Alma að sigla suður fyrir Góðravonahöfða á leið sinni til Japan. Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., segir ekkert nýtt í minnisblaði Obama.

„Þetta er bara 'buisness as usual'. Þetta er ekkert nýtt,“ segir Kristján. „Þetta er í fimmta sinn sem við fáum svona aðvörun. Textinn í þessu er meira og minna eins.“

Kristján túlkar minnisblað Obama sem svo að sú hvalaskoðun sem Íslendingar stunda sé óábyrg. „Ef þú skoðar myndirnar hjá fyrirtækjunum sem auglýsa þessar hvalaskoðunarferðir þá fara þau miklu nær hvölunum en samkvæmt reglum sem settar eru um hvalaskoðunarferðir. Þeir eru hálfpartinn að riðlast á þeim allt sumarið,“ segir Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×