Innlent

„Maður ætlast til þess að forsætisráðherra fari með rétt mál“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Árni segir Sigmund hafa farið með rangt mál.
Árni segir Sigmund hafa farið með rangt mál.
„Hann er alveg út úr öllu korti, það er ekkert hæft í þessu. Maður ætlast til þess að forsætisráðherra hafi svona staðreyndir á hreinu og fari með rétt mál,“ segir Árni Finsson formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands um orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra á um að Bandaríkjamenn væru mesta hvalveiðiþjóð heims.

Samkvæmt tölum frá Alþjóðahvalveiðiráðinu veiddu Bandaríkjamenn 51 norhval frá 2011 til 2012. En Íslendingar veiddu til að mynda 58 hrefnur og Norðmenn 533. 

„Veiðar Bandaríkjamanna eru að mestu á vegum frumbyggja,“ útskýrir Árni og heldur áfram: „En á Íslandi eru þetta iðnaðarhvalveiðar sem byggja á útflutningi.“

Sigmundur Davíð talaði líka um, í ræðustóli Alþingis, að stór náttúruverndarsamtök væru að berjast gegn þorskveiðum.

Árni segir þá fullyrðinu einnig ranga. „Það er ekkert hæft í þessu. Þetta er gömul mýta á Íslandi að næst á eftir hvalveiðum muni umhverfisverndarsamtök einbeita sér að fiskveiðum. Þetta er einfaldlega ekki rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×