Golf

Ólafur Björn gat ekki hafið leik vegna ofsaveðurs

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur tók mynd frá hótelherberginu sem sýnir veðrið í Orlando í dag.
Ólafur tók mynd frá hótelherberginu sem sýnir veðrið í Orlando í dag. Mynd/Samsett
Ólafur Björn Loftsson, kylfingur úr Nesklúbbnum, átti að leika fyrsta hringinn á úrtökumóti fyrir kanadísku PGA-mótaröðina á Reunion Nicklaus-vellinum í Orlando í Bandaríkjunum í dag.

Hann átti að slá af fyrsta teig klukkan 14.09 að staðartíma en keppni var frestað rétt áður en hann gat farið af stað vegna ofsaveðurs sem reið yfir Orlando.

„Þrumur, eldingar og úrhellisrigning í Orlando. Leik var hætt rétt áður en ég hélt á fyrsta teig. Núna bíð ég bara spenntur eftir að veðrið batni. Ég mun ekki ná að klára hringinn í dag en spurning hvort ég spili einhverjar holur,“ segir Ólafur Björn á Facebook-síðu sinni.

Úrtökumótið er 72 holur og fá 18 efstu fullan þátttökurétt og þeir 22 næstu takmarkaðan þátttökurétt á mótaröðinni í ár.

„Undirbúningurinn hefur gengið vel og ég hlakka til að hefja keppni ... Ég ætla að einblína á að slá eitt högg í einu í mótinu, halda þolinmæðinni, fylgja leikskipulaginu og njóta þess að spila frábæran golfvöll,“ segir Ólafur Björn Loftsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×