Heimshornaflakkarinn Vilborg Arna Gissurardóttir er komin í grunnbúðir Everest-fjalls samkvæmt nýrri bloggfærslu sinni. Allt hefur gengið samkvæmt áætlun en enn á hún talsvert verk fyrir höndum.
Everest er hæsta fjall heims og jafnframt eini tindurinn sem Vilborg á eftir að klífa af þeim „sjö hæstu.“ Það er að segja, hæstu fjallstindum í hverri heimsálfu fyrir sig.
Í bloggfærslu sinni segist Vilborg ætla að dvelja í búðunum næstu sex vikur og að henni lítist svo sannarlega vel á nýja dvalarstaðinn sinn.
„Við búum í efri hæðum búðanna og með gott útsýni,“ skrifar hún. „Hver fjallamaður er með sér tjald og það af stærri gerðinni. Til dæmis get ég staðið upprétt í mínu sem er óneitanlega kostur þess að vera ekki af stærri gerðinni.“
Grunnbúðirnar eru í um 5,300 metra hæð og tekur það þónokkurn tíma að venjast andrúmsloftinu í slíkri hæð.
„Mér hefur liðið vel og aðlögun gengur vel en auðvitað aðeins fengið hausverk og verið aðeins andstuttari í brekkunum,“ skrifar Vilborg.
Hún segir símasamband liggja niðri en að nokkuð stöðuga internet-tengingu sé að fá í búðunum.
Vilborg lagði af stað til Nepal í lok mars og stendur til að reyna við topp Everest í maímánuði.
