Innlent

Ætla að ganga inn á hverasvæðið án þess að greiða

Stefán Árni Pálsson skrifar
Vísir/Pjetur
Náttúruunnendur koma saman við Geysi Haukadal í dag kl. 13:30 til að ganga inn á hverasvæðið án greiðslu en þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá íslenskum náttúruunnendum.

Jafnframt hefst í dag dreifing á fríum náttúrupassa til ferðamanna og hvetja íslenskir náttúruunnendur almenning til að greiða ekki aðgangseyri og hringja á lögreglu verði ferð þeirra hindruð „af þjófum í gervi tollheimtumanna“.

Fram kemur í tilkynningunni að unnið sé að stofnun samtaka Íslenskra náttúruunnenda til að vinna gegn óhóflegri gjaldtöku fyrir það eitt að skoða og ljósmynda Íslenskt landslag og náttúru. Opin náttúra er hornsteinn vaxandi ferðaþjónustu á Íslandi sem nú er að skila þjóðinni tugum milljarða í tekjur.

„Eðlileg lausn málsins er að stjórnvöld veiti fjárveitingar úr þessum sífellt vaxandi milljörðum til að byggja upp og halda við náttúruperlum sem eru undirstaða tekjulindarinnar. Að loka náttúrunni og krefjast aðgangseyris af ferðamönnum skaðar ímynd lands og þjóðar og gæti rústað ferðaþjónustunni á fáeinum árum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×