Sport

Íslendingar sópuðu að sér verðlaunum á BJJ-móti í Danmörku

Pétur Marinó Jónsson skrifar
Þráinn Kolbeinsson (til vinstri) og Ómar Yamak (til hægri)
Þráinn Kolbeinsson (til vinstri) og Ómar Yamak (til hægri)
Sjö íslenskir keppendur tóku þátt á Danish Open mótinu í brasilísku jiu-jitsu um nýliðna helgi. Árangurinn lét ekki á sér standa þar sem okkar fólk hirti átta medalíur.

Íslensku keppendurnir komu frá þremur félögum, Mjölni, Fenri á Akureyri og VBC í Kópavogi.

Þráinn Kolbeinsson úr Mjölni sigraði sinn flokk, +100,5 kg flokk brúnbeltinga. Þráinn skráði sig til leiks í -94 kg flokki en sá flokkur var felldur niður vegna lítillar þátttöku. Hann lét það ekki hafa mikil áhrif á sig og sigraði sinn flokk gegn mun þyngri andstæðingi. Þráinn stóð sig einnig vel í opnum flokki brúnbeltinga þar sem hann hafnaði í 2. sæti.

Mjölnismaðurinn Ómar Yamak sigraði sinn flokk, (-70 kg) og Halldór Logi Valsson úr Fenri sigraði einnig sinn flokk, (+100,5 kg) en þeir kepptu báðir í flokki fjólublábeltinga. Daði Steinn Brynjarsson úr VBC keppti einnig í flokki fjólublábeltinga og hafnaði í 3. sæti í sínum flokki (-82,3 kg flokkur). Þá náði Halldór Logi 3. sæti í opnum flokki fjólublábeltinga.

Ari Páll Samúelsson sigraði í flokki blábeltinga undir 76 kíloum en hann keppti fyrir hönd VBC. Oddur Páll Laxdal úr Fenri hafnaði í 2. sæti í flokki hvítbeltinga undir 88,3 kílóum.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá íslensku keppendunum en þau munu einnig keppa á Copenhagen Open mótinu um næstu helgi þar sem átta aðrir íslenskir keppendur munu bætast í hópinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×