Körfubolti

Umfjöllun, viðtöl og myndir: KR - Grindavík 87-58 | Grindvíkingar rassskelltir

Guðmundur Marinó Ingvarsson í DHL-höllinni skrifar
Pavel Ermolinskij rífur niður eitt af fjölmörgum fráköstum KR í leiknum.
Pavel Ermolinskij rífur niður eitt af fjölmörgum fráköstum KR í leiknum. vísir/Valli
KR er komið yfir á ný í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta eftir að hafa rassskellt Grindavík 87-58 á heimavelli sínum í kvöld. KR leiðir einvígið 2-1.

Neðst í fréttinni má sjá myndband af flottum tilþrifum Magna Hafsteinssonar í leiknum í kvöld.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en KR náði að keyra hraðann upp í öðrum leikhluta og það réð Grindavík ekki við.

KR lék frábæra vörn og þegar liðið nær að keyra hratt fram eftir að hafa unnið boltann fær liðið jafnan opin skot og þau settu skyttur KR niður í kvöld.

Þegar Grindavík náði að hægja á leiknum og stilla upp í vörn átti KR oft í erfiðleikum í sókninni en það gerðist of sjaldan til að leikurinn yrði spennandi auk þess sem sóknarleikur Grindavíkur var ekki boðlegur.

Það munaði sextán stigum á liðunum í hálfleik 49-33 og þegar aðeins fjórði leikhluti var eftir var munurinn kominn í 23 stig, 65-42. Úrslitin voru ráðin og síðasti leikhlutinn aðeins formsatriði þar sem minni spámenn fengu þó nokkuð að spreyta sig í báðum liðum.

KR leiðir einvígið 2-1 en þrjá sigra þarf til að hampa Íslandsmeistaratitlinum. Fjórði leikurinn liðanna er í Grindavík, fimmtudaginn 1. maí klukkan 19:15.

KR-Grindavík 87-58 (19-17, 30-16, 16-9, 22-16)

KR: Darri Hilmarsson 17/9 fráköst, Demond Watt Jr. 16/17 fráköst/4 varin skot, Martin Hermannsson 14, Brynjar Þór Björnsson 9, Helgi Már Magnússon 9/7 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 7, Pavel Ermolinskij 5/11 fráköst/8 stoðsendingar, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 5/11 fráköst, Ólafur Már Ægisson 3, Högni Fjalarsson 2.

Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 13/7 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 13/7 fráköst/4 varin skot, Ólafur Ólafsson 10/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 8/11 fráköst, Hilmir Kristjánsson 5, Jóhann Árni Ólafsson 4/6 stoðsendingar, Hinrik Guðbjartsson 2, Daníel Guðni Guðmundsson 2, Kjartan Helgi  Steinþórsson 1.

Finnur Freyr á hliðarlínunni í kvöld.Vísir/Valli
Finnur: Okkur hungrar í þennan titil

„Við klikkuðum sex vítum og fjórum sniðskotum í fyrsta leikhluta, sem við erum vanir að setja niður þannig að mér fannst við betri frá upphafi til enda,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson þjálfari KR.

„Ég var gríðarlega ánægður með hvernig strákarnir mættu til leiks og hvernig þeir héldu krafti í einbeitingu út allan leikinn. Varnarleikurinn var frábær.

„Við sýnum í öllum litlu hlutunum hversu mikið við viljum þetta. Okkur hungrar í þennan titil og sú vinna þarf að fara fram á gólfinu, það er ekki nóg að segja það.

„Það var frábært framlag frá öllum leikmönnum eins og sést vel á töflunni, tveir leikmenn yfir 15 stigum. Þetta er liðssigur, bæði í vörn og sókn.

„Þetta er stór og sterkur æfingahópur og strákarnir sem spila lítið eiga jafn mikið í árangrinum í vetur og hinir,“ sagði Finnur en allir leikmenn að tveimur undanskildum skoruðu fyrir KR í kvöld.

„Það er einn leikur eftir í þessu og það eru allir hér með báða fætur á jörðinni og tilbúnir að klára verkefnið.

„Ég vil sjá meira, ég er þannig, ég vil alltaf meira. Við sættum okkur ekki við neitt minna en það. Við verðum að koma einbeittir til leiks á fimmtudaginn svo það komi ekki upp sama staða og síðast þar sem við glutrum þessu niður,“ sagði Finnur að lokum.

Sverrir Þór ræðir við Grindavíkurliðið í kvöld.Vísir/Valli
Sverrir: Þeir léku sér að okkur

„Þeir voru miklu betri, þeir voru betri í öllu. Við vorum með í 10 mínútur svo fóru þeir að leika sér að okkur,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Grindavíkur.

„Ég vonaði að við kæmum grimmir út úr hálfleiknum og það var heldur betur ekki. Við þurfum að taka til í hausnum á okkur byrja að hugsa um leik númer fjögur.

„Við tókum léleg skot og þeir tóku mjög mikið af sóknarfráköstum. Þeir voru miklu betri og við áttum ekkert skilið út úr þessum leik.

„Það eina góða við þetta er að staðan er 2-1 sama hvort við hefðum tapað með einu stigi eða  þrjátíu.

„Við þurfum að koma okkur á fætur aftur og koma klárir á fimmtudaginn,“ sagði Sverrir.

Sumir segja að það geti verið gott að fá rassskellingu til að kveikja í sér og býst Sverrir við að fá svar við því á fimmtudaginn.

„Það kemur í ljós á fimmtudaginn, það fer eftir því hvernig menn taka svona mótlæti. Ef menn eru alvöru keppnismenn eiga þeir að koma klárir eftir svona rassskellingu,“ sagði þjálfari Grindavíkur.

Leik lokið (87-58): Ótrúlegir yfirburðir KR40. mínúta (87-58): Leik lokið 

38. mínúta (80-52):
Það eru ýmist ungir eða unglegir menn inni á vellinum.

37. mínúta (77-52):
Ekki lengur sami munur, KR bætir bara í. Darri er enn að spila, kominn með 17 stig.

35. mínúta (72-52):
Sami munur og engin spenna.

34. mínúta (70-50): Sigurður Þorsteinsson kominn með fimm villur, ekki að það skipti neinu máli úr þessu.

33. mínúta (70-48): Það má búast við því að lykilmenn liðanna hvíli nokkuð það sem eftir lifir leiks.

32. mínúta (66-46): Munurinn kominn niður í 20 stig.

Þriðja leikhluta lokið (65-42): Grindavík lokaði með þrist og kom sér í 9 stig í fjórðungnum.

29. mínúta (62-39): Grindavík er búið að skora 6 stig á 9 mínútum. Alveg satt!

28. mínúta (60-37): Sóknarleikur KR gengur ekki eins vel og í öðrum leikhluta en það kemur ekki að sök þar sem Grindavík virðist ekki geta keypt körfu.

27. mínúta (56-37): Ómar er með lífsmarki hjá Grindavík.

25. mínúta (56-35): Darri er kominn með 10 stig fyrir KR.

24. mínúta (54-35): Ekkert gengur hjá Grindavík í sókninni og á meðan minnkar liðið ekki muninn.

22. mínúta (51-35): Ekki er það áferðafallegt hér í upphafi seinni hálfleiks en baráttan er til fyrirmyndar.

21. mínúta (51-33): Watt treður er fyrsta karfa seinni hálfleiks eftir sendingu frá Pavel.

Hálfleikur: KR er 16 stigum yfir í leiknum og léku sérstaklega vel í öðrum leikhluta. Grindavík þarf að berjast miklu meira til að eiga möguleika gegn KR en heimamenn hafa tekið 33 fráköst gegn 17. KR hefur þar af tekið 14 sóknarfráköst eða einu fráksti meira undir körfu Grindavíkur en gestirnir.

Hálfleikur: Clinch er með 11 stig fyrir Grindavík og Sigurður Þorsteinsson 7.

Hálfleikur: Watt er með 12 stig og 12 fráköst fyrir KR.  Darri og Brynjar eru með 8 stig hvor og Helgi Már 7.

MYNDBAND: Neðst í fréttinni má sjá myndband af flottum tilþrifum Magna Hafsteinssonar þegar hann stal boltanum og tróð hinum megin.

Hálfleikur (49-33): Grindavík endar á tveimur þristum. Þurftu á þessu að halda en fá ekki stoppið í vörninni.

19. mínúta (45-27): Þetta verður ekki spennandi með þessu áframhaldi.

18. mínúta (41-27): Eftir þessa miklu veislu hægist á leiknum á ný. Það vill Grindavík en liðið þarf að klára sóknirnar betur.

16. mínúta (39-27): Það rignir ekki, það er hellidemba, Darri með þrist en Ólafur svarar með öðrum eins eftir klaufaleg mistök hjá KR.

16. mínúta (36-24): Magni fyrstu í tvær villur hjá KR. Ómar, Ólafur og Daníel síungi allir komnir með tvær hjá Grindavík.

15. mínúta (36-23): KR er að efna til sýningar. Grindavík þarf að rífa sig upp til að vera með.

14. mínúta (32-21): KR nær frákasti, keyra upp og Brynjar fær galopinn þrist. Svona vill KR leika.

14. mínúta (29-21): KR að keyra upp hraðann og það endar með því að Magni Hafsteinsson stelur boltanum og treður. Grindavík getur ekkert gert nema taka leikhlé.

13. mínúta (25-21): Darri með þrist fyrir KR en Grindavík leitar enn inn í teig.

12. mínúta (22-19): Brynjar með þrist og Sigurður svarar inni í teig.

Fyrsta leikhluta lokið (19-17): Allt í járnum, þannig á það að vera.

9. mínúta (17-15): Leikurinn fer fram á vítalínunni þessa stundina, Grindavík setti sín niður en KR er nú búið að klikka á sex í röð. Taugarnar?

8. mínúta (15-13): Fjögur víti forgörðum hjá KR í röð.

7. mínúta (15-13): Watt kominn með 6 stig fyrir KR. Lewis með fimm fyrir Grindavík.

6. mínúta (13-11): Grindavík komst yfir en KR svaraði strax.

5. mínúta (10-9): Þetta var hratt og allt ofan í að auki.

4. mínúta (8-4): Ómar er búinn að skora öll stig Grindavíkur og Martin er kominn með tvo þrista.

3. mínúta (5-2): Pavel kominn á blað fyrir KR.

2. mínúta (3-2): Martin svarar með þrist.

1. mínúta (0-2): KR vann uppkastið en Ómar skorar fyrstu körfuna fyrir Grindavík.

Fyrir leik: KR-ingar taka vel undir með Bubba sínum og ættu leikmenn liðanna að vera vel stemmdir til að bjóða upp á skemmtilegan leik.

Fyrir leik: Þá er búið að kynna liðin og stemningin í húsinu er nú þegar mikil og góð. Þetta verður veisla!

Fyrir leik: Endurlífgunin á skortöflunni gekk upp og ætti leikurinn að hefjast á réttum tíma. Allir anda léttar.

Fyrir leik: Skortaflan er úti og því gæti verið einhver töf á því að leikurinn hefjist. Fylgist með.

Fyrir leik: Grindavík var eina liðið sem sótti sigur í DHL-höllina í deildarkeppninni og veit því hvað þarf til að vinna hið ógnarsterka lið KR á útivelli.

Fyrir leik: Grindavík er meistari tveggja síðustu ára en bæði árin tapaði liðið leik þrjú. Gerist það í kvöld þarf liðið að vinna tvo síðustu leikina, þar af oddaleik hér.

Fyrir leik: Grindavík á titil að verja en liðið þarf að ná að vinna að lágmarki einn leik hér í DHL-höllinni til að takast ætlunarverk sitt.

Fyrir leik: Þegar stundarfjórðungur er til leiks eru dyrnar að salnum opnaðar og húsið svo gott sem fyllist á andartaki.

Fyrir leik: Staðan í einvíginu er 1-1 og spennan mikil.

Fyrir leik: KR vann fyrsta leikinn í einvíginu nokkuð örugglega hér á heimavelli en Grindavík svaraði í hörkuleik í Grindavík.

Fyrir leik: Boltavaktin er klár í slaginn í DHL-höllinni þar sem KR tekur á móti Grindavík í þriðja leik úrslitanna um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla.

Fyrir leik: Komiði sæl og blessuð. Hér verður leik KR og Grindavíkur lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×